Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 24. maí 2019 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Settur á miðjuna vegna meiðsla og blómstrar þar
Stefán Teitur.
Stefán Teitur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líst vel á leikinn, það er sjálfstraust og trú í hópnum, við erum vel stemmdir og vitum að við fáum ekkert gefins í þessum leik," sagði Stefán Teitur Þórðarson leikmaður ÍA í samtali við Fótbolta.net.

ÍA tekur á móti Stjörnunni í 6. umferð Pepsi Max-deildarinnar á sunnudaginn klukkan 17:00 á Akranesi.

„Ég býst við toppleik milli tveggja öflugra liða. Þeir auðvitað vilja komast aftur á sigurbraut og við viljum halda áfram á okkar leið. Þetta verður barátta um alla bolta alveg til leiksloka."

Skagamenn eru á toppi deildarinnar með 13 stig.

„Stigasöfnunin hefur auðvitað verið virkilega góð og komið kannski einhverjum á óvart. Við unnum þessi lið sem við höfum unnið núna í vetur þannig við fórum með hausinn í alla leiki vitandi að við getum unnið þessi lið þótt við séum einhverjir nýliðar. Það eru mikil gæði og trú í hópnum hjá okkur."

Stefán Teitur lék sem framherji með ÍA í Inkasso-deildinni í fyrra en hefur færst niður á miðjuna í sumar.

„Ég datt eiginlega inná miðjuna í síðasta leiknum í Fótbolta.net mótinu. Þá voru allir okkar miðjumenn meiddir. Ég átti virkilega góðan leik og hef verið þar alveg síðan. Mér líður vel með boltann og er ekki hræddur að spila fram á við. Það er pottþétt eitthvað sem Jói og Siggi vildu fá á miðjuna hjá okkur með því að hafa mig þar. Gengið hjá mér sjálfum eins og öllu liðinu hefur verið mjög gott finnst mér og það hefur verið mikill stígandi í hverjum leik," sagði Stefán Teitur sem er ánægður með þjálfarateymið.

„Jói og Siggi eru að vinna mjög vel saman. Það er gott að spila undir þeim og þeir láta þig alveg vita hverju þeir búast við frá þér. Þú kemst ekki upp með að vera ekki 100% hjá þeim," sagði Stefán og hélt áfram.

„Það sem er kannski öðruvísi er að það er meira tempó og gæði á æfingum núna heldur en hefur verið oft áður hjá öðrum þjálfurum og það skilar sér inn í leikina finnst mér," sagði Stefán Teitur að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner