Diaz, Salah, Gallagher, Jorginho, Greenwood, Cancelo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 24. maí 2023 12:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ten Hag útilokaði ekki neitt þegar hann var spurður út í Neymar
Neymar.
Neymar.
Mynd: Getty Images
Brasilíska stórstjarnan Neymar hefur verið orðaður við Manchester United upp á síðkastið.

Sagt er að Man Utd sé eitt af þeim félögum sem hefur verið boðið að kaupa Neymar frá Paris Saint-Germain í sumar.

Framtíð Neymar hjá PSG er í óvissu en félagið er tilbúið að selja hann í sumar.

Erik ten Hag, stjóri Man Utd, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag þar sem hann var spurður út í sögusagnirnar um Neymar. Hann gaf þar lítið upp. „Þegar við erum með einhverjar fréttir þá látum við ykkur vita af því," sagði sá hollenski. Hann útilokaði ekki neitt.

Hinn 31 árs gamli Neymar hefur ekki staðist þær væntingar sem gerðar voru til hans er PSG gerði hann að dýrasta leikmanni sögunnar sumarið 2017. Hann hefur mikið verið meiddur og misst af fjölda leikja vegna þess.

Neymar er samningsbundinn PSG til 2027 en hann er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum og félagið horfir í það að selja hann í sumar. PSG ætlar að breyta um stefnu; hætta að kaupa stjörnur sem eru ekki mjög hungraðar að leggja mikið á sig fyrir félagið.
Athugasemdir
banner