Arsenal og Liverpool eiga möguleika á að fá Vini Jr - Gravenberch fær nýjan samning - Ekitike biðst afsökunar
   mið 24. september 2025 19:50
Elvar Geir Magnússon
Ætlar að kalla fram „íslensku geðveikina“ gegn Lille
Freyr Alexandersson, þjálfari Brann í Noregi.
Freyr Alexandersson, þjálfari Brann í Noregi.
Mynd: Sportsklubben Brann
Freyr Alexandersson verður á morgun fyrsti íslenski þjálfarinn til að stýra liði í Evrópudeildinni þegar lið hans Brann frá Noregi heimsækir Lille í Frakklandi. Freysi sagði á fréttamannafundi að hann vonist til þess að kalla fram „íslensku geðveikina“ í sínu liði.

Stundum er vísað í „íslensku geðveikina“ þegar íslensk landslið koma á óvart og ná góðum árangri. Lille er mun sigurstranglegra í leiknum á morgun.

„Ég get höndlað það vel að við séum taldir litla liðið. Ég kom frá eyju í norðri þar sem við erum með hugarfar sem kallast 'íslenska geðveikin'. Ég er með hana í blóðinu og við trúum því alltaf að við getum unnið," sagði Freyr á fréttamannafundinum.

„Við verðum að sýna hugrekki og ef þú ert ekki með rétta hugarfarið, þessa 'íslensku geðveiki', þá verður þú hræddur og lendir í vandræðum. Ef þú ert með hugrekki og þor getur þú gert eitthvað sem enginn býst við. Það er frábært að upplifa það. Ég vonast eftir því en geri mér grein fyrir því að þetta getur farið í allar áttir."

Stoltur af því
Eins og áður segir er Freyr fyrsti íslenski þjálfarinn til að stýra liði í Evrópudeildinni en hann var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net fyrr í þessum mánuði.

„Það er mjög skemmtilegt og ég er stoltur af því. Það er gaman að geta gert eitthvað fyrir okkur íslensku þjálfarana," sagði Freyr í þættinum en hann er spenntur fyrir þeim leikjum sem framundan eru. Freyr þjálfaði áður Kortrijk í Belgíu sem er alveg við landamærin að Lille svo hann er á kunnuglegum slóðum.

„Við bjuggum þarna við Lille og börnin mín voru í skóla í Lille svo það verður gaman að hitta Hákon og spila við hann. Lille er með geggjað lið og hrikalega sterkir," sagði Freyr.

Sævar Atli Magnússon og Eggert Aron Guðmundsson eru meðal leikmanna Brann og Hákon Arnar Haraldsson leikur með Lille svo það verður sannkallaður Íslendingaslagur á morgun klukkan 16:45, í benni útsendingu á Sýn Sport.
Athugasemdir
banner
banner