Liverpool og Barcelona hafa áhuga á Alvarez - Bilic gæti tekið við West Ham - Man Utd ætlar að fá inn markvörð næsta sumar
   þri 23. september 2025 20:56
Ívan Guðjón Baldursson
Enski deildabikarinn: Liverpool og Chelsea ósannfærandi
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Chelsea
Síðustu leikjum kvöldsins er lokið í enska deildabikarnum þar sem stórveldi Liverpool og Chelsea komust áfram með naumum sigrum gegn neðrideildaliðum.

Alexander Isak spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Liverpool í kvöld og skoraði hann skömmu fyrir leikhlé eftir vandræðagang í varnarleik gestanna frá Southampton.

Federico Chiesa vann boltann í vítateig Southampton eftir háa pressu á Anfield og var hann snöggur að koma boltanum á Isak, sem brást ekki bogalistin af stuttu færi. Liverpool leiddi því 1-0 í leikhlé eftir að hafa verið lakari aðilinn fyrstu 45 mínúturnar.

Isak var skipt af velli í leikhlé fyrir Hugo Ekitike en það var afar lítið um færi á Anfield. Gestunum frá Southampton tókst þó að jafna metin þegar Shea Charles, sem hafði komið inn af bekknum, setti boltann yfir marklínuna á 76. mínútu.

Níu mínútum síðar tók Ekitike forystuna á ný fyrir heimamenn og ákvað hann að fagna með að rífa sig úr treyjunni. Hann var líklega búinn að gleyma því að hann hafði fengið gult spjald fyrr í leiknum og var því rekinn af velli.

Southampton gerði tvöfalda skiptingu til að leggja allt í sóknarleikinn en tókst ekki að jafna metin. Lokatölur 2-1 fyrir Liverpool.

Chelsea heimsótti þá Lincoln City sem leikur í þriðju efstu deild og var 1-0 undir í hálfleik. Lincoln var sterkara liðið í fyrri hálfleik en lærisveinar Enzo Maresca voru fljótir að snúa blaðinu við.

Tyrique George skoraði fyrst glæsimark og lagði svo upp fyrir Facundo Buonanotte sem kom Chelsea yfir eftir frábært einstaklingsframtak. Hann dansaði framhjá fjórum varnarmönnum í litlu plássi áður en hann skoraði.

Bæði lið fengu færi til að bæta mörkum við leikinn en tókst ekki. Heimamenn í Lincoln geta verið svekktir með að hafa ekki gert jöfnunarmark í seinni hálfleiknum.

Að lokum höfðu Wycombe Wanderers betur þegar þeir heimsóttu Wigan Athletic.

Liverpool 2 - 1 Southampton
1-0 Alexander Isak ('43 )
1-1 Shea Charles ('76 )
2-1 Hugo Ekitike ('85 )
Rautt spjald: Hugo Ekitike, Liverpool ('86)

Lincoln City 1 - 2 Chelsea
1-0 Robert Street ('42 )
1-1 Tyrique George ('48 )
1-2 Facundo Buonanotte ('50 )

Wigan 0 - 2 Wycombe Wanderers
0-1 Caolan Boyd-Munce ('32 )
0-2 Donnell McNeilly ('62 )
Athugasemdir