Miðvörðurinn Hörður Björgvin Magnússon skrifaði í dag undir hjá gríska úrvalsdeildarfélaginu Levadiakos en samningurinn gildir út leiktíðina.
Hörður, sem er 32 ára gamall, hóf viðræður við Levadiakos í síðustu viku eftir að hafa flogið í fýluferð til Kýpur þar sem hann átti í viðræðum við Anorthosis Famagusta.
Sama dag og Hörður flaug til Kýpur dæmdi íþróttadómstóll CAS kýpverska félagið til þess að greiða 1,1 milljón evra í sekt vegna vangoldinna launa til tveggja leikmann og hafði það því ekki ráð á því að semja við Hörð.
Félög í Grikklandi voru einnig áhugasöm um að fá hann og var þetta því lán í óláni, en hann flaug aftur til Grikklands, hóf viðræður við Levadiakos og gekk í kjölfarið frá læknisskoðun áður en hann skrifaði undir samning út leiktíðina.
Framarinn hefur glímt við erfið meiðsli síðustu tvö ár en er alveg laus við þau í dag. Hann sleit krossband í september árið 2023 en þurfti síðan að fara í aðra aðgerð undir lok síðasta árs til að laga mistök úr fyrri aðgerð. Hörður sneri aftur á völlinn undir lok síðasta tímabils og lék þá fyrri landsleikinn gegn Skotlandi í verkefninu í sumar sem var hans 50. landsleikur.
Þetta verður áttunda félagið sem Hörður semur við á ferlinum, en áður lék hann með Juventus, Cesena, Spezia, Bristol City, CSKA Moskvu ásamt auðvitað Fram og Panathinaikos.
Levadiakos er staðsett í Livadeia á Mið-Grikklandi og er að taka annað tímabil sitt í röð í grísku úrvalsdeildinni. Tvisvar hefur liðið unnið B-deildina og einu sinni komist í 8-liða úrslit bikarsins.
Hann endurnýjar kynni sín við þá Benjamin Verbic, Yuri Lodygin, Enis Cokaj og Sebastian Palacios sem hann lék með hjá Panathinaikos.
Levadiakos hefur byrjað tímabilið af krafti og er með 7 stig í 5. sæti eftir fjóra leiki.
Athugasemdir