Maignan orðaður við Chelsea á ný - West Ham lítur í kringum sig eftir nýjum stjóra - Ensk stórlið vilja Bremer
   mán 22. september 2025 12:55
Kári Snorrason
Viðurkennir rangan dóm í Víkinni - „Skil gremju liðsins sem þetta bitnar á“
Sigurður Hjörtur dæmdi leikinn.
Sigurður Hjörtur dæmdi leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þóroddur Hjaltalín.
Þóroddur Hjaltalín.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þóroddur Hjaltalín fyrrum dómari og starfsmaður dómaramála hjá KSÍ viðurkennir að um rangan dóm sé að ræða í vítadómi í leik Víkings R. og Fram í gær.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 -  1 Fram

Freyr Sigurðsson leikmaður Fram var dæmdur brotlegur á Karli Friðleifi, leikmanni Víkings. Freyr komst þó á undan í boltann en Sigurður Hjörtur, dómari leiksins, dæmdi engu að síður vítaspyrnu.

„Þetta er því miður röng ákvörðun. Eins og Siggi er búinn að vera frábær í sumar þá verðum við að viðurkenna þarna að ákvörðunin er röng. Framarinn er á undan í boltann og ekki brotlegur.“

„Ég skil gremju liðsins sem þetta bitnar á. En þetta er partur af leiknum og okkar vinna snýst um að fækka þessum mistökum. Þó við munum því miður aldrei útrýma dómaramistökum úr fótbolta.“

Helgi Guðjónsson leikmaður Víkings steig þá upp og tók vítaspyrnuna en lét Viktor Frey, markvörð Fram, verja frá sér. Dómarar leiksins mátu það sem svo að Viktor var farinn af línunni og var því vítaspyrnan var tekin aftur.

„Markmaðurinn er klárlega kominn af línunni og þeir meta það hárrétt að láta endurtaka spyrnuna.“

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, benti á í viðtali eftir leik að Helgi Guðjónsson hefði stöðvað í aðhlaupi sínu í fyrri vítaspyrnunni.

„Það er ekki hægt að setja út á þetta aðhlaup. Í lögunum stendur að gabbhreyfing í aðhlaupinu sé leyfileg. Það má ekki stoppa eftir að komið er að boltanum. En hefði hann stoppað algjörlega í hlaupinu hefði það verið vafasamt. En því að hann stoppar ekki alveg er ekki hægt að setja út á aðhlaupið.“
Athugasemdir
banner
banner