Samkvæmt þeim upplýsingum sem Fótbolti.net hefur eru fimm aðalþjálfarar í Bestu deildinni með samninga sem renna út eftir tímabilið. Mögulega eru svo fleiri með uppsagnarákvæði.
Þjálfararnir fimm eru þeir Heimir Guðjónsson, Hallgrímur Jónasson, Davíð Smári Lamude, Lárus Orri Sigurðsson og Magnús Már Einarsson.
Þjálfararnir fimm eru þeir Heimir Guðjónsson, Hallgrímur Jónasson, Davíð Smári Lamude, Lárus Orri Sigurðsson og Magnús Már Einarsson.
Fjórar umferðir eru eftir af Bestu deildinni og þrír síðastnefndu þjálfararnir eru hjá liðum sem eru að berjast við botn deildarinnar.
Heimir Guðjónsson er með FH liðið í efri hlutanum þriðja árið í röð. FH hefur verið að spila vel að undanförnu eftir að hafa verið nálægt fallsvæðinu lengi framan af. FH hefur ekki verið í titilbaráttu undir stjórn Heimis síðustu þrjú ár og liðið á pappírunum slakara en toppliðin. Heimir tók við liðinu eftir tímabilið 2022 þar sem allt var í rugli hjá FH, sneri við skútunni en ekki er búið að endursemja við hann.
Hallgrímur Jónasson er með KA í 7. sæti og laust við fallhættu sem er vel af sér vikið eftir annað tímabilið í röð þar sem byrjun tímabilsins var þung. Haddi gerði KA að bikarmeisturum í fyrra og lagði Evrópuleikina gegn Silkeborg vel upp í sumar. Haddi er að klára sitt þriðja heila tímabil með KA, það hefur heyrst af því að hann verði áfram, en engin tilkynning hefur verið gefin út.
Davíð Smári er með Vestra í 9. sæti deildarinnar og ef mótið væri flautað af í dag væri það gjörsamlega frábært tímabil, bikarmeistatitill, áfram í Bestu og á leið í Evrópu. Gengi Vestra hefur hins vegar ekki verið gott eftir bikarúrslitaleikinn og fallhættan raunveruleg. Davíð er að klára sitt þriðja tímabil með Vestra og hefur gert frábæra hluti; kom liðinu upp, hélt því uppi og vann bikarinn. Vestri vill eðlilega halda sínum manni í brúnni en framtíðin er óráðin og Davíð líklega á blaði hjá öðrum félögum í deildinni.
Lárus Orri og ÍA hafa unnið þrjá sigra í röð og eru komnir upp úr fallsæti. Það verður að teljast ansi líklegt að ÍA vilji halda honum ef liðið heldur sæti sínu, en það er spurning hvort það gangi upp hjá Lárusi sem er búsettur á Akureyri. Samið var við hann út tímabilið í júní og staðan á framhaldinu tekin eftir tímabilið.
Magnús Már kom Aftureldingu upp úr Lengjudeildinni í fyrra og upp í efstu deild fór liðið í fyrsta sinn í sögunni. Byrjun tímabilsins var nokkuð fín en síðustu þrír mánuðir hafa verið erfiðir og komin löng bið eftir sigri. Það er óvíst hvað tekur við Magga, gæti hann haldið áfram þó að fall yrði niðurstaðan? Gætu önnur félög í Bestu deildinni viljað fá inn yngri þjálfara?
Athugasemdir