Alexander Isak spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Liverpool í 2-1 sigri gegn Southampton fyrr í kvöld.
Isak skoraði eina markið í fyrri hálfleik og var svo skipt af velli fyrir Hugo Ekitike í leikhlé, enda er Isak ennþá að komast í leikform.
Ekitike átti eftir að skora sigurmark Liverpool seint í leiknum en framherjinn lét reka sig af velli í kjölfarið. Hann reif sig úr treyjunni til að fagna markinu og fékk seinna gula spjaldið sitt að launum.
„Ég er viss um að hann hafi ekki áttað sig á því að hann væri á gulu spjaldi á þessari stundu. Stundum þegar þú skorar mark þá ertu allur í því augnabliki og gleymir öðru. Auðvitað er þetta óheppilegt," svaraði Isak þegar hann var spurður út í atvikið.
Hann er mjög ánægður með að vera búinn að skora sitt fyrsta mark fyrir Liverpool eftir að hafa verið keyptur fyrir metfé í lok sumargluggans.
„Þetta var gott kvöld, það er frábært fyrir mig að komast aftur út á völlinn og skora mark. Það er frábært að hafa náð í sigur. Ég átti að skora annað mark fyrr í leiknum en svona er lífið sem framherji, stundum klúðrar maður og stundum skorar maður. Það mikilvægasta þegar maður klúðrar er að hrista það af sér og vera tilbúinn í næsta tækifæri. Ég er með mikið sjálfstraust fyrir framan markið."
Ekitike fer í leikbann útaf rauða spjaldinu og missir því af útileik gegn Crystal Palace um helgina. Isak verður þá væntanlega aftur í byrjunarliðinu.
„Mér líður vel, ég er að komast í betra form með hverjum leik. Mér líður eins og ég geti gert góða hluti um helgina."
23.09.2025 21:04
Sjáðu atvikið: Ekitike reif sig úr treyjunni og fékk rautt
Athugasemdir