Arsenal og Liverpool eiga möguleika á að fá Vini Jr - Gravenberch fær nýjan samning - Ekitike biðst afsökunar
   mið 24. september 2025 19:04
Brynjar Ingi Erluson
Sandra María hetjan í fyrsta sigri tímabilsins - Inter úr leik í deildarbikarnum
Kvenaboltinn
Sandra María kom sér tvisvar á blað og tryggði fyrstu stig tímabilsins
Sandra María kom sér tvisvar á blað og tryggði fyrstu stig tímabilsins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra María Jessen opnaði markareikning sinn með þýska félaginu Köln með því að skora bæði mörkin í 2-1 útisigri á Essen í deildinni í kvöld.

Sandra gekk í raðir Kölnar frá Þór/KA fyrir nokkrum vikum og var að leika sinn fjórða leik með liðinu.

Hún beið þolinmóð eftir fyrsta markinu sem kom á 11. mínútu leiksins og aðeins þremur mínútum síðar gerði hún annað mark sitt sem reyndist gríðarlega mikilvægt.

Flott frammistaða hjá Söndru sem tryggði Köln fyrstu stig tímabilsins og situr liðið nú í 10. sæti með 3 stig eftir fjóra leiki.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð á milli stanganna hjá Inter sem datt úr leik í deildabikarnum eftir 2-1 tap gegn Juventus í undanúrslitum. Deildabikarinn var settur á laggirnar fyrir þetta tímabil og er hálfgerður undirbúningur fyrir deildina sem hefst í byrjun október.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var á bekknum en kom ekkert við sögu.

Arna Eiríksdóttir spilaði í vörninni hjá Vålerenga sem lagði Lyn að velli, 2-1, í norsku úrvalsdeildinni. Sædís Rún Heiðarsdóttir var ónotaður varamaður á bekknum.

Vålerenga er í öðru sæti deildarinnar með 52 stig, fjórum stigum frá Brann.

Bergrós Ásgeirsdóttir lék þá allan leikinn með Aarau sem tapaði fyrir Servette, 4-1, í svissnesku úrvalsdeildinni. Aarau er með aðeins eitt stig eftir fimm leiki.
Athugasemdir