Liverpool og Barcelona hafa áhuga á Alvarez - Bilic gæti tekið við West Ham - Man Utd ætlar að fá inn markvörð næsta sumar
   þri 23. september 2025 15:30
Elvar Geir Magnússon
Leið Víkings Ó. og Tindastóls á Laugardalsvöll - Hiti og dramatík
Víkingar frá Ólafsvík fagna marki.
Víkingar frá Ólafsvík fagna marki.
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Tindastóll hefur leikið á heimavelli í öllum umferðum hingað til.
Tindastóll hefur leikið á heimavelli í öllum umferðum hingað til.
Mynd: Sigurður Ingi Pálsson
Barist verður um þennan bikar á föstudagskvöld.
Barist verður um þennan bikar á föstudagskvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á föstudagskvöld klukkan 19:15 mætast Víkingur Ólafsvík og Tindastóll frá Sauðárkróki í úrslitaleik Fótbolti.net bikarsins á hybrid grasi Laugardalsvallar.

Ólafsvíkurliðið er í 2. deild en Tindastóll er í 3. deild.

Þetta er þriðja tímabilið sem þessi skemmtilega keppni, yngsta og sprækasta bikarkeppni landsins, fer fram. Víðir í Garði varð fyrst félaga til að lyfta bikarnum á Laugardalsvelli og í fyrra var það Selfoss sem fagnaði sigri gegn KFA í úrslitaleik.

Hér má sjá hvernig leið Víkings og Tindastóls var í úrslitaleikinn þetta árið.

Leið Víkings í úrslitaleikinn
Víkingur Ólafsvík tók á móti Elliða í 32-liða úrslitum í júní og vann þar þægilegan 6-1 sigur þar sem Ingólfur Sigurðsson skoraði þrennu, Kwame Quee tvö og Ingvar Freyr Þorsteinsson eitt.

Í 16-liða úrslitum vannst svo 3-1 sigur gegn Reyni Sandgerði. Asmer Begic kom Ólsurum yfir en Reynismenn jöfnuðu fyrir hlé. Ellert Gauti Heiðarsson kom Víkingum aftur í forystu á 79. mínútu og í uppbótartíma skoraði Ingvar Freyr.

Það var spennandi leikur þegar KFA fékk Víking Ólafsvík í heimsókn í 8-liða úrslitum. Staðan var 2-2 eftir 90 mínútur og 3-3 eftir 120 mínútur. Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni en með því að smella hér má lesa nánar um þann leik.

Það var svo aftur hádramatík í undanúrslitunum þar sem staðan var 3-3 eftir venjulegan leiktíma gegn Gróttu. Ekkert var skorað í framlengingu og aftur unnu Ólsarar í vítakeppni en hér má lesa nánar um þann leik.

Leið Tindastóls í úrslitaleikinn
Tindastóll hefur leikið á heimavelli í öllum umferðum keppninnar hingað til og vann 2-0 sigur gegn Árborg í 32-liða úrslitum en Svetislav Milosevic og Kolbeinn Tumi Sveinsson skoruðu mörkin.

Tindastóll sigraði svo Þrótt Vogum 3-2 í mjög fjörugum leik í 16-liða úrslitum þar sem Svetislav Milosevic, Jóhann Daði Gíslason og Arnar Ólafsson skoruðu fyrir Tindastól.

Tindastóll sigldi örugglega í gegnum 8-liða úrslitin með 4-1 sigri gegn KFG. Sverrir Hrafn Friðriksson skoraði tvívegis og auk þess skoruðu Arnar Ólafsson og Jóhann Daði Gíslason.

Í undanúrslitunum var svo þessi margumtalaði grannaslagur gegn Kormáki/Hvöt. Fjögur mörk, fjögur rauð spjöld, tvær vítaspyrnur og mikill hiti í 3-1 sigri Tindastóls þar sem Manuel Ferriol skoraði þrennu.
Athugasemdir
banner
banner