Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   þri 25. febrúar 2020 21:56
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Bayern fór létt með Chelsea - Jafnt á Ítalíu
Serge Gnabry fagnaði mörkunum vel og innilega
Serge Gnabry fagnaði mörkunum vel og innilega
Mynd: Getty Images
Dries Mertens og Lionel Messi í baráttunni á San Paolo í kvöld
Dries Mertens og Lionel Messi í baráttunni á San Paolo í kvöld
Mynd: Getty Images
Þýska liðið Bayern München er í góðri stöðu eftir 3-0 sigur á Chelsea í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld en á sama tíma skildu Napoli og Barcelona jöfn á Ítalíu, 1-1.

Chelsea 0 - 3 Bayern
0-1 Serge Gnabry ('51 )
0-2 Serge Gnabry ('54 )
0-3 Robert Lewandowski ('76 )
Rautt spjald: Marcos Alonso, Chelsea ('83)

Willy Caballero stóð á milli stanganna hjá Chelsea í fjarveru Kepa Arrizabalaga en Caballero hafði nóg að gera. Hann varði vel í fyrri hálfleik eftir mistök Ross Barkley.

Thomas Müller fékk frábært tækifæri stuttu síðar eftir fyrirgjöf Serge Gnabry en skalli hans fór í slá. Chelsea náði að halda núllinu inn í hálfleikinn en í þeim síðari fór allt niður á við.

Serge Gnabry skoraði tvö mörk með þriggja mínútna millibili en fyrra markið kom á 51. mínútu eftir skemmtilegt spil með Robert Lewandowski og þá var síðara markið afar svipað. Lewandowski stakk boltanum inn fyrir og Gnabry kláraði örugglega einn á móti Caballero.

Lewandowski bætti svo þriðja markinu eftir frábæran sprett Alphonso Davies. Það bætti gráu ofan á svart á 84. mínútu er Marcos Alonso var rekinn af velli fyrir að slá Lewandowski í andlitið. Dómarinn gaf honum upphaflega gult spjald en VAR skoðaði atvikið og var hann rekinn af velli.

Lokatölur 3-0 fyrir Bayern sem fer með gott veganesti til München en ljóst er að Frank Lampard og lærisveinar hans eiga erfitt verkefni fyrir höndum.

Mertens jafnaði markamet Marek Hamsik

Napoli 1 - 1 Barcelona
1-0 Dries Mertens ('30 )
1-1 Antoine Griezmann ('57 )
Rautt spjald: Arturo Vidal, Barcelona ('89)

Napoli og Barcelona skildu jöfn á Ítalíu en Dries Mertens skoraði afar mikilvæg mark á ferlinum.

Hann kom Napoli yfir á 30. mínútu með góðu skoti eftir sendingu frá Piotr Zielinski. Þetta var 121. mark hans fyrir Napoli og er hann nú markahæstur frá upphafi ásamt Marek Hamsik. Til gamans má geta að Diego Maradona skoraði 115 mörk fyrir Napoli á sjö árum sínum hjá Napoli.

Börsungar náðu að koma til baka og jafna leikinn en Antoine Griezmann var þar að verki eftir sendingu frá portúgalska bakverðinum Nelson Semedo.

Arturo Vidal var rekinn af velli undir lok leiks eftir að hann tæklaði Mario Rui en svo átti hann í orðaskiptum við dómarann sem varð til þess að hann fékk rautt spjald. Lokatölur 1-1 á San Paolo og ljóst að það er spennandi leikur framundan á Nou Camp.
Athugasemdir
banner
banner
banner