Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 25. mars 2023 23:40
Ívan Guðjón Baldursson
Southgate kippir sér ekki upp við ferð Rashford til New York
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Enski landsliðsmaðurinn Marcus Rashford hefur verið sjóðandi heitur fyrir Manchester United á tímabilinu og var valinn í enska landsliðshóp Gareth Southgate fyrir leiki gegn Ítalíu og Úkraínu í landsleikjahlénu.


Rashford þurfti þó að draga sig úr hópnum vegna meiðsla, enn eina ferðina, og er hluti stuðningsmanna enska landsliðsins byrjaður að vera þreyttur á því að leikmaðurinn sé nánast alltaf liðtækur fyrir félagslið sitt en sjaldan fyrir landsliðið. Það vakti því ekki mikla lukku meðal þessara stuðningsmanna þegar þeir sáu myndbirtingar frá hinum meidda Rashford, sem ákvað að skella sér í kærustuferð til New York í landsleijahlénu.

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, hefur þó komið Rashford til varnar. Rashford, sem gerði gott mót með Englandi á HM í Katar, hefur skorað 19 mörk í 25 leikjum með Man Utd eftir að HM kláraðist.

„Það er ekkert vandamál fyrir okkur að Marcus sé labbandi um New York. Það væri æðislegt að hafa hann, en því miður þá er hann meiddur og getur ekki verið með okkur. Það er smá munur á því að spila fótboltaleik á hæsta stigi og að rölta um New York," sagði Southgate.

„Það er algjörlega undir honum komið hvernig hann eyðir sínum frítíma. Hann er ekki með landsliðshópnum og er þar af leiðandi í fríi. Leikmenn fá svo lítið af frídögum að þeir verða að nýta alla þá sem gefast. Ég efast ekki um að margir landsliðsmenn munu fljúga burt frá Englandi strax eftir leikinn gegn Úkraínu á morgun. Ef þeir geta fengið 48 klukkustundir í frí þá verða þeir að nýta það."

Hinn 25 ára gamli Rashford varð fyrir smávægilegum meiðslum í bikarsigri Man Utd gegn Fulham og missti því af 1-2 sigri Englands gegn Ítalíu. Hann verður heldur ekki með á heimavelli gegn Úkraínu á morgun en Southgate segir ekkert til í því að leikmaðurinn sé að ofgera meiðsli til að taka sér langþráða frídaga.

„Marcus á yfir 50 landsleiki að baki og ég hef þekkt hann í langan tíma. Ég veit hvernig manneskja hann er og hvers hann er megnugur á fótboltavellinum. Þetta er leikmaður sem skorar svo mikið að maður býst við marki frá honum í hvert sinn sem hann spilar.

„Við vonum að hann haldi áfram að spila svona vel því hann getur reynst okkur afar dýrmætur í nánustu framtíð."


Athugasemdir
banner
banner
banner