Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   lau 25. maí 2024 10:58
Ívan Guðjón Baldursson
Ten Hag: INEOS ætlar að endurbyggja félagið með mér
,,Þessir svokölluðu fótboltasérfræðingar hafa ekki kunnáttuna"
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Hollenski þjálfarinn Erik ten Hag býst við að vera áfram hjá Manchester United í sumar. Hann gaf viðtal við hollenska miðilinn Voetbal þar sem hann greinir frá þessu.

Ten Hag segist vera spenntur fyrir komandi tímum hjá Man Utd þar sem hann ætlar sér að breyta félaginu í samstarfi við INEOS, nýja minnihlutaeigendur félagsins.

„INEOS mun breyta þessu félagi og við erum strax byrjuð að sjá aðgerðir. Carrington æfingasvæðið verður til dæmis eyðilagt og nýtt byggt upp í staðinn. Ég hef rætt til lengdar við INEOS og þeir vilja endurbyggja félagið með mér, þetta er það sem þeir sögðu við mig," sagði Ten Hag við Voetbal.

„Við erum á jákvæðri vegferð innan félagsins þrátt fyrir mjög neikvæða umræðu í fjölmiðlum. Vandamálið er að fótboltasérfræðingar á Englandi eru alltaf að reyna að 'skora', þeir hafa þörf fyrir að sanna sig og þá er Manchester United auðvelt skotmark. Það er auðvelt að níðast á félaginu, þetta er stærsta félag á Englandi og mögulega í heiminum. Þetta er félag sem fólk annað hvort elskar eða hatar, það er enginn millivegur.

„Þegar hlutirnir ganga illa hjá okkur þá byrja sérfræðingarnir að gjamma með mjög stórum orðum. Það kemur ótrúlega mikil neikvæðni frá þessum svokölluðu sérfræðingum sem hafa ekki kunnáttuna til að greina hluti með staðreyndum, heldur kjósa frekar að ráðast að einstaklingum til að upphefja sjálfa sig. Þetta er sama fólk og hrósaði mér í hástert eftir síðustu leiktíð.

„Í fyrra gat ég labbað á vatni en núna er ég orðinn versti þjálfari úrvalsdeildarinnar!"


Man Utd endaði í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar á fyrsta tímabili Ten Hag við stjórnvölinn, með 75 stig. Núna er öðru tímabili hans að ljúka og enduðu Rauðu djöflarnir í áttunda sæti deildarinnar í þetta sinn eftir afar erfitt tímabil sem einkenndist af ótrúlega miklum meiðslum.

Ten Hag hefur fengið gríðarlega mikla gagnrýni í fjölmiðlum á tímabilinu sem hefur oft á tíðum verið óvægin. Hann nýtti viðtalið við Voetbal til að svara fyrir sig.
Athugasemdir
banner
banner