Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 25. september 2022 14:07
Ívan Guðjón Baldursson
Sesko fékk treyjuna hjá Haaland: Horfi mikið á hann á YouTube
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Benjamin Sesko skoraði og lagði upp í 2-1 sigri Slóveníu gegn Noregi í Þjóðadeildinni í gærkvöldi.


Erling Braut Haaland kom Noregi yfir í upphafi síðari hálfleiks en Sesko lagði upp jöfnunarmarkið og gerði sjálfur sigurmarkið á lokakaflanum.

Haaland braust fram í sviðsljósið hjá RB Salzburg þar sem hann raðaði inn mörkunum og var keyptur til Borussia Dortmund. Sesko er að fara svipaða vegferð, hann er lykilmaður hjá Salzburg og er þýska félagið RB Leipzig búið að festa kaup á honum.

Sesko, sem er kominn með 5 mörk og 2 stoðsendingar í 13 leikjum á tímabilinu, mun ganga í raðir Leipzig næsta sumar.

„Haaland er stórkostlegur leikmaður sem ég ber mikla virðingu fyrir. Ég horfi mikið á hann á YouTube og reyni að læra," sagði Sesko sem fékk treyjuna hjá Haaland að leikslokum.

„Ég er mjög ánægður að hafa fengið treyjuna hans, ég bæti henni í safnið. Hann hrósaði mér og sagði 'vel spilað' þegar við skiptumst á treyjum. Það gerði mig mjög glaðan."

Fréttamaður TV2 spurði Sesko að lokum hvort hann gæti orðið betri leikmaður heldur en Haaland. 

„Það verður mjög erfitt. Hann er í hæsta gæðaflokki, það eru bara örfá prósent af fótboltamönnum sem komast á þetta stig."

Sesko er 19 ára gamall (2003) og Haaland 22 ára (2000).


Athugasemdir
banner