Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 26. maí 2019 17:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Gary Martin ekki einn vandamálið hjá þessu liði"
Gary samdi við Val um starfslok.
Gary samdi við Val um starfslok.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvert fer hann?
Hvert fer hann?
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Gary Martin hefur gert starfslokasamning við Val og má hann byrja að leita sér að nýju liði. Hann má semja við nýtt félag á Íslandi þegar félagaskiptaglugginn opnar í júlí.

Í útvarpsþættinum Fótbolti.net í gær ræddu Elvar Geir Magnússon og Tómas Þór Þórðarson um málið.

„Eitthvað er hann með í vasanum," sagði Tómas um Gary Martin sem gerði starfslokasamning við Val.

Síðastliðinn vetur skrifaði Gary Martin undir þriggja ára samning við Val og skoraði hann tvö mörk í fyrstu þremur leikjum Pepsi Max-deildarinnar. Eftir það var hann hins settur í frystikistuna og fékk ekki að æfa með liðinu.

„Ég ætla að giska á það að þetta sé dýrasti Facebook-status íslensks íþróttafélags frá upphafi. Þetta er mikil synd fyrir Val. Þeir missa framherjann sem þeir voru að reyna að fá til að leysa Patrick Pedersen af, manninn sem átti að skora mörkin."

Vildu losna við fleiri
Íslandsmeistarar Vals fara illa af stað í Pepsi Max-deildinni, eru aðeins með fjögur stig í níunda sætinu eftir fimm umferðir. „Eru þeir ekki að reyna að gera Gary Martin að blórabögglinum?" spurði Elvar.

„Það er kannski eitthvað til í því. Þeir vildu losna við fleiri. Samkvæmt mínum heimildum voru þeir að reyna að losa sig við Kaj Leó, Emil Lyng og Gary nokkrum dögum fyrir gluggann. Það er bara þannig," sagði Tómas.

„En Gary Martin er ekki einn vandamálið hjá þessu liði. Innkaupin hafa ekki verið góð og það eru slakari menn og slakari liðsmenn komnir inn í þetta. Valur er að reyna að fara aftur í Val síðustu tveggja ára. Þetta verður rosalega erfitt. Ég skil ekki alveg hvert þeir ætla núna fram að því að glugginn opnar aftur."

Næsti áfangastaður?
Tómas og Elvar búast við því að Gary vilji vera áfram á Íslandi. Hann mun ekki tjá sig á næstunni, hann er búinn að samþykkja að tala ekki um Val og þessi málefni.

Hver er næsti áfangastaður? Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði í gær að það væru alltaf líkur á því að Gary myndi koma í KR. Stjarnan gæti líka verið áfangastaður fyrir hann.

„Það verður erfitt fyrir hvaða lið sem er að sannfæra stuðningsmenn sína, aðra leikmenn eða félagið að fá þennan mann. Það lítur út fyrir að hann sé skemmt epli, það lítur þannig út," sagði Tómas.

„Það vantar einhverja púðurtunnu til að kveikja í Garðabænum."

„Hann er það góður, hann hentar leikstílnum, skorar mörk. Það er ekki að áðstæðulausu að doktorinn (Hjörvar Hafliðason) og fleiri málsmetandi menn í fótboltanum giskuðu strax á Stjörnuna. Hann ætti að smella þarna inn eins og flís við rass."

Gary Martin hefur einnig spilað með Víkingi R. hér á landi. Tómas telur að hann sé ekki á leiðinni í Víking.

Nánar má hlusta á umræðuna í útvarpsþættinum hérna.

Valur mætir Breiðablik klukkan 19:15 í Pepsi Max-deildinni í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner