sun 26. júlí 2020 11:15
Ívan Guðjón Baldursson
Tobias Thomsen á förum frá KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danski miðillinn Bold heldur því fram að Tobias Thomsen sé tilbúinn til að snúa aftur í danska boltann eftir þrjú og hálft ár á Íslandi.

Tobias, fæddur 1992, hefur leikið fyrir KR og Val hér á landi og gert 18 mörk í efstu deild karla. Á dvöl sinni á klakanum hefur hann unnið deildina tvisvar.

Tobias er þó kominn með nóg af Pepsi Max-deildinni og vill snúa aftur til Danmerkur þar sem hann segir fjögur B-deildarlið hafa áhuga á sér.

„Danski boltinn byrjar í lok ágúst og ef ég vil ná byrjun tímabilsins þarf ég að segja upp samningnum hjá KR. Félagið veit að ég sakna Danmerkur og hefur sýnt mér mikinn skilning," sagði Tobias í viðtali við Bold.

„Ég hef verið í sambandi við nokkur lið í B-deildinni og mun líklega skipta yfir áður en íslenska tímabilinu lýkur. Það eru ekki mörg lið í Danmörku sem geta leyft sér að borga upp samninginn minn hjá KR."

Tobias er samningsbundinn KR þar til 16. október en vill ólmur losna frá félaginu fyrir haustið. Hann segir mikilvægt að hans nýi klúbbur verði staðsettur nálægt Kaupmannahöfn svo hann geti verið nær fjölskyldu sinni og vinum.

„Ég hef spjallað mikið við stjórnendur KR um þetta og við höfum átt góð samtöl. Félagið er til í að hjálpa mér að snúa aftur heim en eins og staðan er í dag þá einbeiti ég mér að því að gera vel fyrir KR.

„Ég mun líklega þurfa að taka á mig launalækkun hjá nýju félagi vegna Covid-19. Félög í Danmörku hafa líklega fundið meira fyrir efnahagsáhrifum veirunnar heldur en á Íslandi."


Tobias segir koma til greina að vera áfram á Íslandi eða skipta yfir til Noregs eða Svíþjóðar. Hann talar vel um íslenska boltann og telur að bestu lið Pepsi Max-deildarinnar gætu gert fína hluti í fallbaráttu dönsku deildarinnar.

Tobias er kominn með eitt mark í fimm leikjum í Pepsi Max-deildinni í ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner