Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   sun 26. nóvember 2023 18:32
Brynjar Ingi Erluson
England: Garnacho með draumamark í sigri Man Utd á Everton
Svipurinn á Alejandro Garnacho segir allt sem segja þarf
Svipurinn á Alejandro Garnacho segir allt sem segja þarf
Mynd: Getty Images
Anthony Martial skoraði þriðja markið
Anthony Martial skoraði þriðja markið
Mynd: EPA
Það gengur ekkert upp hjá Everton hvorki innan né utan vallar
Það gengur ekkert upp hjá Everton hvorki innan né utan vallar
Mynd: EPA
Everton 0 - 3 Manchester Utd
0-1 Alejandro Garnacho Ferreyra ('3 )
0-2 Marcus Rashford ('56 , víti)
0-3 Anthony Martial ('75 )

Manchester United vann 3-0 sigur á Everton í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Goodison Park í dag. Stórbrotið mark Alejandro Garnacho verður helsti umræðupunktur leiksins næstu vikurnar.

Þegar rúmar tvær mínútur voru komnar á klukkuna skoraði Garnacho flottasta mark tímabilsins til þessa. Diogo Dalot kom með fyrirgjöfina frá hægri, djúpt inn í teiginn. Garnacho bakkaði aðeins áður en hann stökk upp, hlóð í bakfallsspyrnu og stýrði boltanum með ristinni efst í hægra hornið. Jordan Pickford skutlaði sér en átti aldrei möguleika á að verja skotið.

Stórkostlegt mark í alla staði og verður seint toppað.

Erfitt er að útskýra hvernig Everton tókst ekki að jafna metin eftir rúman hálftímaleik. Dominic Calvert-Lewin átti skalla beint á André Onana eftir hornspyrnu og þá bjargaði táningurinn Kobbie Mainoo á línu frá James Garner.

Abdoulaye Doucoure fékk þá algert dauðafæri stuttu síðar er hann fékk boltann í teignum frá Dwight McNeil og hafði allan tímann í heiminum en setti boltann framhjá.

Everton fékk tvö góð færi til viðbótar til að jafna leikinn en þeir Calvert-Lewin og Idrissa Gana Gueye fóru illa að ráði sínu. United stálheppið að fara með forystu inn í hálfleikinn.

Þessi klúður komu í bakið á Everton. Á 52. mínútu féll Anthony Martial í teignum eftir að Ashley Young steig með fótinn inn í Martial.

John Brooks, dómari leiksins, spjaldaði Martial fyrir dýfu, en VAR breytti ákvörðuninni og vítaspyrna dæmd. Marcus Rashford skoraði af miklu öryggi og kom United í 2-0.

Gueye var nálægt því að svara mínútu síðar en Onana varði frábærlega. Fimmtán mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma gulltryggði Martial sigurinn með góðu skoti eftir sendingu frá Bruno Fernandes.

Vitalyi Mykolenko átti skot í þverslá og þá bjargaði United á línu áður en leikurinn var úti. Boltinn vildi ekki inn og lokatölur því 3-0 United í vil.

United er í 6. sæti með 24 stig en Everton í næst neðsta sæti með 4 stig.
Athugasemdir
banner
banner