André Onana, markvörður Manchester United, er ekki að gera mikið til þess að sannfæra Ruben Amorim um að hann geti verið markvörður númer eitt á tímabilinu, en United er nú 2-0 undir gegn D-deildarliði Grimsby á Blundell Park.
Onana leit ekkert frábærlega út í fyrra markinu sem United fékk á sig, en seinna markið var talsvert verra fyrir kamerúnska landsliðsmanninn.
Grimsby-menn komu boltanum inn á fjölmennan teiginn. Onana keyrði út í boltann en hitti hann illa þannig hann skoppaði aftur fyrir hann og fyrir Tyrell Warren sem potaði honum í netið. Það má alveg færa rök fyrir því að ef VAR væri í notkun þá hefði markið verið tekið af þar sem leikmaður Grimsby virtist fara í Onana, en það er ekkert VAR og markið dæmt gott og gilt.
Dapurt hjá United sem er tveimur mörkum undir og á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að United sé að fara koma til baka í þennan leik.
Stuðningsmenn Grimsby eru farnir að syngja klassíska söngva til Amorim: „Rekinn í fyrramálið, þú verður rekinn í fyrramálið.“ .
Sjáðu annað markið hjá Grimsby
Athugasemdir