þri 29. nóvember 2022 16:41
Elvar Geir Magnússon
Koulibaly valdi rétta tímann fyrir fyrsta landsliðsmarkið
Kalidou Koulibaly.
Kalidou Koulibaly.
Mynd: Getty Images
Það er háspenna í leik Ekvador og Senegal, hreinum úrslitaleik um hvort liðið mun fylgja Hollendingum upp úr A-riðli. Ekvadorum nægir jafntefli.

Senegal var mun betra liðið í fyrri hálfleik og leiddi verðskuldað 1-0 eftir mark úr vítaspyrnu.

Senegal lagðist svo fullmikið til baka eftir hlé og Moises Caicedo jafnaði fyrir Ekvador í 1-1 eftir hornspyrnu á 68. mínútu.

Adam var víst ekki lengi í Paradís og Afríkumeistararnir í Senegal endurheimtu forystuna aðeins tveimur mínútum síðar.

„Nú erum við að tala saman!" sagði Hörður Magnússon sem lýsir leiknum á RÚV.

Það var Kalidou Koulibaly, varnarmaðurinn sterki hjá Chelsea, sem kom Senegal í 2-1. Þetta er hans 66. landsleikur fyrir Senegal og fyrsta mark. Góður tímapunktur til að skora loksins fyrir þjóð sína! Eftir aukaspyrnu hrökk boltinn til Kolubaly af Enner Valencia, fyrirliða Ekvador.

Það eru rúmlega tíu mínútur eftir af þessum leik þegar fréttin er skrifuð.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner