Joao Pedro í forgangi hjá Liverpool - Man Utd setur verðmiða á Rashford - Real Madrid missir vonina gagnvart Davies
banner
   fös 29. nóvember 2024 22:14
Brynjar Ingi Erluson
Guðrún: Mikilvægt fyrir vegferðina áfram
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðrún Arnardóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins, var ánægð með varnarleikinn sem liðið sýndi gegn Kanada í kvöld og telur úrslit síðustu leikja mikilvæg fyrir framhaldið.

Lestu um leikinn: Ísland 0 -  0 Kanada

Íslenska liðinu tókst ekki að skora í kvöld þó liðið hafi sannarlega fengið færi til. Það vantaði aðeins upp á að Ísland gæti unnið leikinn, en varnarleikurinn var gríðarlega öflugur.

„Fínn leikur og sérstaklega varnarlega, Sóknarlega vorum við alveg að skapa færi, en fannst við geta haldið aðeins betur í boltann og ekki vera jafn stressaðar á tímabilum þegar við höfðum boltann. Heilt yfir fín frammistaða.“

„Heilt yfir vorum við að verjast vel. Við vorum að halda þeim fyrir framan okkur og utan á okkur og ekki að hleypa þeim í gegn á markið. Heilt yfir held ég að þetta hafi verið frekar 'solid',“
sagði Guðrún.

Hún telur að þetta sé allt að smella saman en það þurfi þó aðeins meiri ró á boltann.

„Varnarleikurinn var stabíll og fá aðeins meiri ró á boltann þegar við vinnum hann sóknarlega. Þá getum við skapað enn betri og fleiri færi fram á við.“

Ísland hefur spilað mjög vel í undanförnum leikjum. Sýnir þetta ekki að liðið er á réttri leið?

„Algjörlega. Við erum að vaxa mikið sem lið og sýna flotta frammistöðu, sem er mikilvægt fyrir vegferðina áfram. Þetta er eitthvað sem við höldum áfram að byggja og töluðum mikið um að taka eitt lítið skref fram á við og við höldum áfram að gera það,“ sagði Guðrún í lokin við KSÍ.

Ísland mætir Dönum á Pinatar-vellinum á mánudag en það verður síðasti leikurinn á þessu ári.
Athugasemdir
banner
banner