þri 30. nóvember 2021 20:18
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bjóst við léttum leik og var búinn að ákveða skiptingarnar
Icelandair
Amanda Andradóttir kom inn á í hálfleik.
Amanda Andradóttir kom inn á í hálfleik.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna, hreyfði vel við liði sínu í dag þegar 4-0 sigur vannst á Kýpur í undankeppni HM 2023.

Hann gerði alls fimm breytingar, þar af tvær í hálfleik. Alexandra Jóhannsdóttir og Amanda Andradóttir komu inn á í hálfleik fyrir Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Sveindísi Jane Jónsdóttur. Gunnhildur fékk höfuðhögg í fyrri hálfleik, en Steini segist hafa verið búinn að ákveða að gera þessar skiptingar fyrirfram.

„Ég held að hún (Gunnhildur) sé allt í lagi. Það var eitthvað smá í auganu hennar. Ég var svo sem búinn að ákveða skiptinguna löngu áður en það gerðist," sagði Þorsteinn.

„Ég var búinn að ákveða að rótera liðinu í dag. Allar skiptingarnar voru þannig séð fyrirfram ákveðnar - þó maður sé alltaf tilbúinn að breyta einhverju ef hlutirnir eru ekki að falla eins og maður bjóst við. Ég bjóst við að þetta yrði léttur leikur og að við myndum klára þetta í fyrri hálfleik. Það gerðist. Ég var búinn að ákveða að hreyfa við liðinu."

„Við ætluðum að nota þetta ár í að koma leikmönnum inn í þetta og sjá hvernig leikmenn fúnkera hjá okkur, nota þetta ár í það þegar við hefðum tækifæri til. Við gerðum það til dæmis í dag."

Tvær spiluðu fyrsta keppnisleikinn
Ída Marín Hermannsdóttir, leikmaður Vals, og Natasha Moraa Anasi, leikmaður Breiðabliks, komu báðar inn á sem varamenn á 65. mínútu leiksins. Þær spiluðu í fyrsta sinn í keppnisleik með landsliðinu.

„Ída Marín og Natasha stóðu sig vel. Þetta eru leikmenn sem eiga góða möguleika á að vera í landsliðinu áfram. Þetta snýst allt um frammistöðu og nýta tækifærið. Það er gríðarlega mikilvægt upp á að halda sæti sínu."

„Ég var sáttur við þær í dag og sáttur við þær í ferðinni. Þær auka breiddina hjá okkur möguleikana sem við höfum. Það er gaman að sjá þegar leikmenn standa sig vel."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner