Man Utd reynir við Branthwaite - Slot hefur áhuga á Watkins - Sesko efstur á blaði Arsenal
   mið 31. júlí 2013 12:00
Matthías Freyr Matthíasson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ísland er ekki land þitt - Ef þú vilt spila fótbolta með öðru liði
Matthías Freyr Matthíasson
Matthías Freyr Matthíasson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórður Einarsson skrifar margt um ágætan pistil hér á Fótbolti.net sem birtist í dag og má lesa hann hér.

Ég fann mig þó knúinn til þess að skrifa örstutt svar til handa Þórði og öllum þeim sem hafa haft ríka skoðun á þeirri ákvörðun sem Aron Jóhannsson hefur tekið, .þ.e. að gefa kost á sér í landslið Bandaríkjamanna í knattspyrnu.

Vissulega og vil ég taka það fram áður en ég held lengra áfram, hefði ég kosið að sjá Aron leika í fremstu víglínu Íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Þetta segi ég sem fótboltaáhugamaður en ekki sem Íslendingur. Ég hef reyndar ekki séð Aron spila knattspyrnuleik en hef fylgst með afrekum hans í gegnum fjölmiðla (reyndar held ég að það sama sé að segja um flesta Íslendinga) og klárlega eru afrek hans hingað til mögnuð og er ljóst að hann er mikill markaskorari.

Þórður talar um í fyrrnefndum pistli að þjóðarstoltið hafi rokið upp þegar árangur Anítu Hinriksdóttur í frjálsum íþróttum átti sér stað um daginn og það er rétt og er ég einn af þeim sem gladdist yfir þeim magnaða árangri. Þórður talar einnig um að honum þyki miður að Aron hafi ekki kosið að skila til baka til samfélagsins. Þetta er ansi sterk fullyrðing. Hver er að segja að Aron hafi ekki skilað einhverju til baka til samfélagsins. Nú er ég ekki alveg með það á hreinu en mig minnir að Aron hafi tekið þátt í einhverjum góðgerðarsöfnunum sem átt sér hafa stað í Íslensku samfélagi. Er það þá ekki að gefa til baka? Hvað með alla þá sem hafa fæðst hér og alist upp, gengið í skóla og þar af leiðandi hlotið menntun hér og hafa flust erlendis til að sinna frama sínum þar og aldrei snúið aftur. Eru þeir minni Íslendingar því þeir hafa „ekki skilað til baka í samfélagið"?

Íslensk ungmenni líta upp til þeirra sem ná árangri í lífinu og íþróttamenn okkar eru vissulega þar á meðal. Held ég að mér sé óhætt að fullyrða að þeir sem fylgjast með íþróttum líti á íþróttamenn okkar sem hetjur (þeir sem ná árangri á sínum sviðum) og Aron hefur væntanlega öðlast einhvern sess í Íslenskri þjóðvitund síðustu ár með framgangi sínum í erfiðum heimi atvinnumennskunnar. Held einnig að mér sé að sama skapi óhætt að fullyrða það að Aron muni ekki detta af „hetju“ stallinum þrátt fyrir að hann kjósi að spila knattspyrnu fyrir annað landslið.

Fari það svo að hann muni spila á HM í Brasilíu árið 2014 fyrir USA held ég einnig að Íslensk ungmenni muni styðja hann og fyllast aðdáun nái hann að gera vel þar. Það þrátt fyrir að það gæti farið svo að Íslenska landsliðið muni spila þar einnig (ekki líklegt en það gæti gerst) að þá held ég að stuðningurinn og aðdáunin á Aroni og afrekum hans muni ekkert minnka. En að sjálfsögðu er það svo að þetta eru allt mínar vangaveltur en ég hef það á tilfinningunni að Íslenska þjóðin styðji alltaf sitt góða fólk, þótt að það kjósi að gerast svo djörf að spila hugsanlega með öðru landsliði.

En að líkja Aroni við útrásarvíkinga líkt og Þórður gerir í grein sinni er helst langt til of seilst. Þar er að ræða um menn sem skildu allt eftir í brunarústum. Það er Aron alls ekki að gera. Því að það er nefnilega svo að við eigum ansi frambærilegt landslið eins og Þórður bendir réttilega á. Aron hefur ekki enn spilað leik með A-landsliði karla og samt hefur árangurinn verið viðunandi enn sem komið er. Í það minnsta í þessari undankeppni.

Ég er Íslendingur og stoltur af því. Ég horfi æstur á þegar landslið okkar spilar, hvort sem um er að ræða fótbolta eða handbolta (íþróttaáhugi minn er takmarkaður við þessar greinar) og styð liðin fram í rauðan dauðan. Ég var einn af þeim sem horfði á Alexander Peterson standa sig stórkostlega á EM í handbolta í leik á móti Póllandi árið 2010 og ekki hugsaði ég sem svo að hann væri útlendingur. En það er nú samt svo að hann er upprunalega útlendingur sem kom að spila handbolta á Íslandi því að hann taldi að spila hér væru betri tækifæri en í heimalandi sínu. Hann hlaut Íslenskan ríkisborgararétt og spilar því með landsliðinu og hefur komist mjög langt í atvinnumennsku í sinni íþrótt og engin hefur haft neitt við það að athuga (skiljanlega).

Síðan getum við tekið hinn pólinn í þessa umræðu. Árið 1997 fór geimferjan Discovery í geimferð. Meðal geimfaranna var maður að nafni Bjarni Tryggvason. Bjarni þessi fæddist á Íslandi árið 1945 en fluttist sem ungabarn til Kanada og hefur kanadískt ríkisfang og talar ekki Íslensku að neinu ráði. Samt voru Íslendingar, fjölmiðlar og aðrir ekki lengi að „eigna" okkur þennan merka mann. Mann sem meirihluta ævi sinnar hefur búið í öðru landi og hafði aldrei komið til landsins eftir að hann flutti út og varð fullorðinn og gerðist geimfari. Er hann Íslendingur? Ég held allavegana að hann telji sig Íslenskan að einhverju leyti og að sama skapi tel ég að Aron telji sig vera Íslending, jafnvel þótt að hann muni spila knattspyrnu með öðru landsliði.

Aron lítur væntanlega á það að spila með USA sem tækifæri til að ná sem lengst í sinni íþrótt. Ég er ekki sammála ákvörðun hans og hefði kosið að hann hefði tekið aðra ákvörðun, en hann gerði það ekki og það virði ég og óska honum alls hins besta í framtíðinni. Eitt er ljóst í mínum huga. Ég mun fagna með honum og fyrir hans hönd í hvert sinn sem hann nær einhverjum stórkostlegum árangri.
Athugasemdir
banner
banner