Manchester United er komið aftur í viðræður við Aston Villa um argentínska markvörðinn Emi Martínez en það er Fabrizio Romano sem segir frá þessu á X.
Man Utd hafði áhuga á Martínez í sumar en félögunum kom ekki saman um verð og fór því United að skoða aðra kosti í stöðuna.
Mikil markvarðakrísa er í gangi hjá United, en André Onana hefur ekki byrjað í fyrstu þremur deildarleikjunum og hefur Ruben Amorim heldur viljað nota Altay Bayindir, sem er ekki talinn nægilega góður til þess að standa á milli stanganna á þessu tímabili.
Félagið hefur verið í viðræðum við belgíska félagið Antwerp um hinn 23 ára gamla Senne Lammens, en United vill vera með annan leikmann kláran ef eitthvað kemur upp á.
Belgíski blaðamaðurinn Sacha Tavolieri segir lítið að gerast í viðræðum United og Antwerp, og svo virðist sem að félagið hafi ákveðið að skoða aðra kosti.
Samkvæmt Fabrizio Romano er Man Utd búið að opna viðræður við Aston Villa um Martínez á nýjan leik. Argentínumaðurinn hefur náð samkomulagi við United.
Eitt er víst og það er að United ætlar sér að sækja markvörð fyrir gluggalok.
Athugasemdir