Tottenham í bílstjórasætinu um Akanji - Chelsea undirbýr tilboð - Verður Rogers arftaki Elliott hjá Liverpool?
   sun 31. ágúst 2025 15:17
Brynjar Ingi Erluson
Sævar Atli skoraði tvö í svekkjandi jafntefli - Guðlaugur Victor þreytti frumraun sína
Sævar Atli skoraði bæði mörk Brann og er nú kominn með sjö mörk fyrir norska liðið síðan hann kom frá Lyngby í sumar
Sævar Atli skoraði bæði mörk Brann og er nú kominn með sjö mörk fyrir norska liðið síðan hann kom frá Lyngby í sumar
Mynd: Af netinu
Sævar Atli Magnússon skoraði bæði mörk Brann er liðið gerði svekkjandi 2-2 jafntefli við Kristiansund í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Framherjinn kom Brann í 2-0 forystu á tveimur mínútum. Hann skoraði fyrra mark sitt á 67. mínútu og seinna markið úr vítaspyrnu á 69. mínútu.

Hann hefur nú skorað sjö mörk frá því hann kom frá Lyngby í sumar og er greinilega að njóta sín vel undir stjórn Freys Alexanderssonar í Noregi.

Brann hins vegar tókst að kasta sigrinum frá sér á síðasta stundarfjórðungi leiksins og 2-2 jafntefli niðurstaðan.

Sævar Atli og Eggert Aron Guðmundsson byrjuðu báðir hjá Brann sem er í 3. sæti með 37 stig.

Nökkvi Þeyr Þórisson kom inn af bekknum hjá Spörtu Rotterdam sem tapaði fyrir Feyenoord, 4-0, í hollensku úrvalsdeildinni og þá var Kolbeinn Birgir Finnsson ónotaður varamaður í 2-0 sigri Utrecht á PEC Zwolle.

Guðlaugur Victor Pálsson þreytti frumraun sína með danska B-deildarliðinu Horsens sem tapaði fyrir B93, 2-1, á heimavelli. Guðlaugur kom inn af bekknum í hálfleik en Horsens var þá manni færri eftir að Sebastian Hausner fékk að líta rauða spjaldið.

Horsens er þrátt fyrir tapið áfram á toppnum með 15 stig eftir átta umferðir.
Athugasemdir
banner