Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   fös 05. október 2012 16:45
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Í skugga á San Siro
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Mynd: Svenskfotboll
Mynd: Getty Images
Mynd: People.ch
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
Grein þessi er byggð á grein sem birtist í Dagbladet í Noregi - Greinin fjallar um bók sem Martin Bengtsson hefur gefið út um feril sinn, “I skuggan av San Siro” - Birtist fyrst á Sammarinn.com.Martin Bengtsson er ekki nafn sem margir kannast við. En ef allt hefði farið eftir áætlun hefðum við líklegast fengið að sjá nafn hans í fjölmiðlum í hverri viku. Eftir að hafa dvalið í herbúðum Inter Milan í stuttan tíma reyndi hann að fremja sjálfsmorð og síðan þá hefur hann varla sparkað í fótbolta aftur. Hver var hann og hvernig gat þetta gerst?

Martin Bengtsson fæddist í Svíþjóð og lék þar eins og margir strákar á hans aldri knattspyrnu af miklum móð. Hann þótti snemma efnilegur en þó ekki framúrskarandi. Dag einn sá hann fréttaskýringu í sjónvarpinu þar sem unglingaakademía Ajax var skoðuð og hann heillaðist alveg. Daginn eftir útbjó hann æfingaáætlun og framtíðarmarkmið. 14 ára átti hann að spila í úrvalsdeildinni og 16 ára átti hann að vera atvinnumaður á Ítalíu í uppáhaldsliðinu AC Milan.

Hann eyddi öllum stundum í fótbolta. Í frímínútum í skólanum gat hann stundað tækniæfingar, eftir skóla voru það skotæfingar og fyrir svefninn hélt hann tennisbolta á lofti til að bæta sig. Hver einasta mínúta skipti máli. Fljótlega fann hann þó að hann varð orðinn fíkill. Æfingafíkill. Hann ældi oft kvöldmatnum út af ofreynslu. Hann fékk búlímíu því hann vildi ekki fitna og verða of þungur. Líkt og hjá öðrum fíklum komu fram sterk fráhvarfseinkenni ef fíkninni var ekki svalað. Svona gekk þetta þó í mörg ár.

Hann segist í dag lítið muna frá þessum tíma. Þessi hluti ævi hans er í móðu. Hann átti sér ekkert líf fyrir utan fótboltann. Fótboltahæfileikar hans fóru fljótlega að vekja athygli og hann var fyrirliði nokkurra yngri landsliða. Fljótlega fann hann fljótt að hann var öðruvísi en hinir strákarnir. Hann þoldi ekki að hlusta á fyrirlestra um hvernig atvinnumenn skyldu haga sér. Hann þoldi ekki töffaraskapinn í hinum strákunum. Þeir hlógu að tónlistarsmekknum hans, því hann hlustaði á mun dekkri tónlist en þeir.

16 ára gamall lék hann sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni. Þar lagði hann upp tvö mörk og fjölmiðlar fóru hamförum. Nýji Wayne Rooney var fæddur. Enn fannst honum að hann ætti ekki heima í klefanum með liðsfélögunum. Fljótt skapaði hann sér sinn eigin stíl, fékk sér eyrnalokka, rifnar gallabuxur og sítt hár. Hann dreymdi um að fá sýna hinum að það var hægt að vera góður fótboltamaður án þess að þurfa að fylgja straumnum. Hann fór á reynslu til Ajax og Chelsea og augljóst var að mörg félög voru á eftir honum.

Dag einn kom umboðsmaðurinn hans að honum og sagðist hafa fengið tilboð um reynsluspil. Þótt Martin hafi verið mikill AC Milan maður og haldið mikið upp á Van Basten var hann ekki lengi að skipta rauðsvarta litnum út fyrir þann blásvarta þegar hann heyrði að félagið sem hafði boðið honum var Inter Milan. Reynsludvölin hjá Inter hefði ekki getað verið betri. Á fyrstu æfingunni klobbaði hann Materazzi og Materazzi straujaði hann. Leikmenn Inter kölluðu hann Bob Marley út af rastafléttunum sem hann hafði fengið sér. Þremur dögum eftir heimkomuna hringdi umboðsmaðurinn og tilkynnti honum að Inter vildi kaupa hann.

Hann mætti til Milano nýklipptur og flottur. Tveggja og hálfs árs samningur á góðum kjörum. Hann sá þó strax að dvöl hans hjá Inter yrði ströng. Eftirlitsmyndavélar voru fyrir utan íbúðir ungu leikmannanna og það gaf honum hroll. Fótboltalega séð gekk honum þó óaðfinnanlega vel hjá Inter. Skoraði mörk, spilaði í bikarúrslitaleikjum með unglingaliðinu og allt stefndi í frábæra framtíð. Á æfingum voru allar stóru stjörnurnar, Vieri, Materazzi og Adriano. En honum leið þó ekki alltaf vel. Reyndi að kaupa sér hamingju í Armani, Cucci og D&G en sú hamingja var aðeins tímabundin.

Fyrsta viðvörunin um að eitthvað væri ekki í lagi kom fljótlega. Hnéð hans varð fyrir miklu hnjaski og hélt það honum frá æfingum um hríð. Þetta gerðist einmitt þegar Martin var farinn að venjast lífinu á Ítalíu. Þá fór hugurinn að reika. Hvað er hann þegar hann er ekki inni á vellinum að spila? Án fótboltans hafði hann ekkert. Eina gleðin sem hann hafði var fótboltinn og án hans var hann ekki neitt. Hann náði sér af meiðslunum og fór með liðinu í æfingaferð til Austurríkis. Þar voru tveir strákar í liðinu teknir fyrir að reykja gras (það væri áhugavert að vita hvaða leikmenn það voru). Eftir það voru ungu leikmennirnir ekki lengur frjálsir ferða sinna. Þeir voru lokaðir inni á hóteli eftir æfingarnar og Martin fór að líða verr og verr. Hann læsti sig inni að loknum æfingum og opnaði ekki aftur fyrr en komið var að þeirri næstu. Tónlistin sem hann hlustaði á kallaði fram nýjar tilfinningar sem hann hafði ekki fundið áður. Reiði, mikla reiði. Í unglingalandsleik hafði hann hlaupið á eftir andstæðingi sínum yfir hálfan völlinn og tæklað hann.

Síðan kom að örlagaríka deginum. Ræstingakonan var nýbúin að húðskamma hann fyrir að skíta út íbúðina. Hann reiddist og læsti sig inni. Við tóna David Bowie fann hann fram rakvélablöð og skar sig á púls.

Liðsstjórn Inter sendi sálfræðing inn á sjúkraherbergið hans til að tala við hann. Martin hafði nefnilega ekki dáið. En það eina sem sálfræðingurinn gerði var að skamma hann. Hann hafði allt! Hvernig gat hann gert þetta, strákur sem er ríkur, góður í knattspyrnu og með bjarta framtíð í vændum. Martin bara hló að honum, og var síðan sendur heim til Svíþjóðar.

Hann var djúpt niðri í langan tíma. Hann fékk þó nýjan sálfræðing, mikið skárri en þann fyrri og með aðstoð hans tókst honum loks að komast á lappir aftur. Hann fann að atvinnumenskan hafði bælt niður í honum allar tilfinningar hans. Hann hafði ekki mátt tjá sig á neinn hátt utan knattspyrnuvallarins. Hann ákvað að gefa knattspyrnunni þó eitt tækifæri í viðbót. Örebro tók við honum og ekki leið á löngu þar til hann birtist á vellinum aftur. En honum leið ekki betur.

Eftir sigurleik þar sem hann skoraði tvö mörk og var valinn maður leiksins las hann það sem dagblöðin sögðu. “Hann er kominn aftur!” Martin vildi ekki taka þátt í þessu aftur og sagði við foreldra sína að nú væri hann endanlega hættur í fótbolta. Hann lék þó með liðinu út tímabilið og þegar kom að því að tilkynna opinberlega um ákvörðunina trúði því enginn. Allir töldu að hann hlyti að vera eitthvað bilaður. Þjálfarinn felldi tár.

Hann hóf að skrifa texta, texta við lög, bækur og sjálfsævisögu. Búsettur í Berlín langt frá æskuheimilinu. Sjálfsævisagan heitir “I skuggan av San Siro” og hefur sú bók nú verið túlkuð á leikhússviði í Örebro.

Saga hans er nú kennd sem hlekkur í þjálfun á ungum afreksmönnum í Svíþjóð, einkum knattspyrnu. Saga hans er ekkert einsdæmi en þetta opnar augun í þeim sem elska knattspyrnu og horfa á hana vikulega. Hver einasti knattspyrnumaður sem leikur í stóru deildunum í Evrópu hefur sína sögu að segja.

Flestir hafa það sameiginlegt með Martin að hafa haft draum sem þeir hafa eltst við alla sína ævi en eins og við vitum, er fyrir hvern leikmann með vel heppnaðan feril eru milljónir annarra leikmanna sem aldrei náðu jafnlangt.
Athugasemdir
banner
banner