Pochettino að missa starfið? - Man Utd tilbúið að losa sig við Antony og fleiri - Mörg lið berjast um Palhinha - De Bruyne vill MLS frekar en...
banner
   þri 16. desember 2014 12:00
Magnús Már Einarsson
„Ronaldo ekki enn á stalli með Pelé og Maradona"
Svar við fyrirspurn í sérfræðingahorni Fótbolta.net
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hefur opnað sérfræðingahorn á síðunni þar sem lesendur geta sent inn fyrirspurnir um allt sem tengist fótbolta á einhvern hátt.

Patrekur Darri Hermannsson, 16 ára, kom með með spurningu um Cristiano Ronaldo sem má sjá hér að neðan.

Björn Friðgeir Björnsson, ritstjóri á raududjoflarnir.is, hefur fylgst vel með ferli Ronaldo síðan Portúgalinn kom til Manchester United á sínum tíma. Hann svaraði spurningunni og svar hans má sjá hér að neðan.

Er Ronaldo að fara verða besti fótboltamaður sögunnar?
Stutta svarið: Nei.

Langa svarið: Í raun held ég að enginn í dag geri alvarlegan mun á Ronaldo og Messi getulega séð, nema árlegt form er svolítið breytilegt og því flakkar gullboltinn á milli þeirra

Þeir tveir eru í dag svo langbestu knattspyrnumennirnir að það er næstum óþægilegt fyrir allan hina að þurfa að vera að spila með þeim. Markaskorun þeirra beggja með tveim bestu liðum Spánar er svo yfirgengileg að engin met munu standa óhögguð þegar þeir hætta að spila. En engu að síður er það svo að ég hef enn engan séð reyna að halda því fram að þeir séu enn komnir á stall með Pelé og Maradona sem eru án nokkurs vafa tveir bestu knattspyrnumenn sögunnar.

Það má ef til vill halda því fram að fortíðarþráin liti um of skoðanir manna, sérstaklega þeirra sem eldri eru, en ég ætla að reyna að rökstyðja þetta betur.

Pelé er líklega mesti markaskorari sögunnar en Maradona er hvergi nálægt honum á þeim lista og ekki aðeins af því að hann lék innan við helming þeirra leikja sem Pelé lék. Samt eru þeir félagar í dag ætið nefndir í sömu andrá þegar nefna á besta leikmann sögunnar. Markaskorun segir því ekki allt um það hver er bestur. Hins vegar er það Heimsmeistarakeppnin sem er einn stærsti þátturinn. Pelé kom á sjónarsviðið í HM'58, og sló í gegn, sautján ára unglingurinn, og skoraði m.a. 2 mörk í úrslitaleiknum. Í HM'62 og HM'66 átti hann við meiðsli að stríða en var svo besti maðurinn á HM'70, í liði sem margir segja bestu heimsmeistara allra tíma.

Á sama hátt gerði Maradona Argentínu að heimsmeisturum 1986 í liði sem í besta falli mátti kalla venjulegt. Hann bæði dró þann vagn og ýtti honum. Síðan gerði hann Napoli að besta liði Ítalíu, aftur án mikillar hjálpar.

Hvorki Messi né Ronaldo hafa slegið í gegn með landsliðum sínum. Messi var vissulega valinn leikmaður mótsins í sumar, en það var varla marktækt. Ronaldo hefur ekki náð að lyfta meðalmennskuliði Portúgal til sigurs, hvorki á HM né EM.

Það má því segja að þessir yfirburðamenn dagsins í dag líði fyrir það að vera í bestu liðum Spánar, í deild þar sem bestu liðin eru alvöld, utan ótrúlegs gengis Átletico síðasta vetur.

Þeir munu halda áfram að skora og skora en til þess að annar hvor þeirra, eða báðir, taki skrefið upp á við þurfa þeir að setja mark sitt á stórmót og helst að leiða sitt landslið til sigurs.

Það getur verið að það sé ósanngjarn mælikvarði en spurningin 'Hver er bestur' í knattspyrnu mun alltaf vera svarað af blöndu af tilfinningum og tölfræði. Og þegar kemur að tilfinningum þá er heimsmeistarkeppnin í knattspyrnu einn af hápunktum knattspyrnunar. Ef svo væri ekki, þætti mér líklegt að við værum ekki að tala um Pelé og Maradona eina tvo, heldur væru þeir í miðjum lista leikmanna á borð við Alfredo di Stéfano, George Best, Johan Cruyff, já og Messi og Ronaldo.

Það er ekki sem sé nóg að vera frábærlega teknískur, það er ekki nóg að skora og skora og skora, það þarf líka eitthvað meira... og hvað það eitthvað meira er, er erfitt að segja, en eins og er virðist sem hvort Ronaldo né Messi hafi náð að töfra það fram og heilla nógu marga til að það verði samdóma álit að þeir eigi heima á stallinum sem í dag rúmar bara tvo bestuknattspyrnumenn allra tíma. Pelé og Maradona.

En spurðu mig aftur þegar ferli drengsins frá Funchal er lokið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner