Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fim 01. mars 2018 13:00
Magnús Már Einarsson
Óli Jó og landsliðið - Var rekinn en hélt samt áfram
Ólafur á landsliðsæfingu árið 2011.
Ólafur á landsliðsæfingu árið 2011.
Mynd: Fótbolti.net - Vilhjálmur Siggeirsson
Ólafur á hliðarlínunni í leik á Laugardalsvelli.
Ólafur á hliðarlínunni í leik á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Vilhjálmur Siggeirsson
Ólafur í viðtali eftir landsleik.
Ólafur í viðtali eftir landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Vilhjálmur Siggeirsson
Ólafur og Pétur Pétursson aðstoðarmaður hans á landsliðsæfingu.
Ólafur og Pétur Pétursson aðstoðarmaður hans á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals og fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, er gestur dagsins í þættinum Návígi hjá Gunnlaugi Jónssyni. Ólafur fer þar meðal annars vel yfir feril sinn með íslenska landsliðinu frá 2007 til 2011.

Smelltu hér til að hlusta á Óla Jó í Návígi

Ólafur segir þar frá því að hann hafi nokkrum sinnum verið mjög nálægt því að hætta sem landsliðsþjálfari auk þess sem hann hafi á einum tímapunkti verið rekinn en samt hélt hann áfram störfum. Ólafur stýrði Íslandi í undankeppni HM 2010 og undankeppni EM 2010 en Lars Lagerback var ráðinn þjálfari þegar hann lét af störfum haustið 2011.

Árið 2010 tók stjórn KSÍ þá ákvörðun að sjö leikmenn sem höfðu verið í A-landsliðinu myndu frekar taka þátt í leikjum gegn Skotum í umspili um sæti á EM með U21 árs landsliðinu heldur en í leik gegn Portúgal í undankeppni EM með A-landsliðinu.

Aron Einar Gunnarsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Rúrik Gíslason og Jóhann Berg Guðmundsson höfðu allir verið í byrjunarliðinu í síðasta leik A-landsliðsins á undan og Kolbeinn Sigþórsson og Birkir Bjarnason voru varamenn. Ólafur mátti hins vegar ekki velja þá í hópinn gegn Portúgal.

Var misboðið eftir ákvörðun KSÍ
Ólafur fékk fyrst þau skilaboð að hann myndi fá að velja þá leikmenn sem hann vildi í leikinn gegn Portúgal.

„Tveimur dögum síðar var ég boðaður aftur á fund og þá var búið að breyta öllu. Þá var mér tilkynnt af stjórn KSÍ að U21 landsliðið gengi fyrir. Meira segja var mér tilkynnt að ég ætti að segja frá því að ég hefði tekið þá ákvörðun að leyfa U21 árs landsliðinu að ganga fyrir. Ég tók ekki þá ákvörðun," sagði Ólafur í Návígi en hann var allt annað en ánægður með þessa ákvörðun stjórnar KSÍ.

„Ég sagði þeim þarna að ég væri alvarlega að íhuga að stíga frá borði. Mér var misboðið þarna. Við ræddum þetta og á endanum gerði ég það ekki. Það voru kannski mistök hjá mér að hafa ekki gengið frá borði. Í kjölfarið á þessu voru þung samskipti á milli okkar. Ég var rekinn á einhverjum tímapunkti líka en það varð ekkert úr því einhverja hluta vegna," sagði Ólafur og hló.

„Þjálfararnir hjá hinum liðunum hringdu í mig og spurðu hvað væri í gangi. Við vorum í keppni við önnur lið í riðlinum. Þetta var móðgun við önnur lið að stilla upp B-liði í leik þar sem stig og markatala skipti máli. Morten Olsen, landsliðsþjálfari Dana, átti ekki orð. Þetta setti blett á íslenska knattspyrnu. Hvort að ákvörðunin var rétt eða röng að láta þá spila verða aðrir að dæma um. Þeir hefðu líka getað farið í lokakeppnina þó þessir strákar hefðu ekki spilað, það veit enginn. Þetta myndi aldrei gerast í dag, ég fullyrði það."

Íhugaði oft að hætta
Ólafur fékk talsverða gagnrýni í starfi sínu og hann segist oft hafa velt því fyrir sér að láta staðar numið.

„Ég íhugaði oft hvort ég ætti ekki bara að hætta þessu helvíti. Ég held að það hefðu margir gengið frá borði miðað við þá gagnrýni og bull sem ég fékk yfir mig. Auðvitað er ég ekki besti vinur blaðamanna, ég hef vitað það alla tíð. Ég hef alltaf verið heiðarlegur og unnið mína vinnu. Það sem sumir sögðu á þessum tíma var fyrri neðan allar hellur."

Ólafur segir einnig að aðbúnaður landsliðsins hafi ekki verið næstum því sá sami á hans tíð í starfi og hann hefur verið undanfarin ár.

„Ég vildi skipta um liðsstjóra á sínum tíma en ég fékk það ekki af því að það þurfti að borga nýjum liðsstjóra vinnutap. Þá var það ekki möguleiki."

„Ég vildi fá fyrrum atvinnumannamenn með mér í fararstjórn sem ég þekkti og vissu hverjir voru en það gekk ekki. Ég fékk ekki að fara út og sjá alla leiki sem ég vildi. Það var margt svona."


Ekki bara neikvæðir tímar
Margir leikmenn í íslenska landsliðinu í dag spiluðu sína fyrstu landsleiki þegar Ólafur var við stjórnvölinn.

„Ég fékk Hauk Inga (Guðnason) einu sinni til að koma með okkur í leik og vera í kringum okkur. Ég talaði við hann um að menn myndu setja sér framtíðarmarkmið með þessu landsliði. Hann sagði við leikmennina á einhverjum fundinum að við ættum að stefna á það að innan X ára ætti þetta landslið góða möguleika á að komast inn á stórmót. Ég vissi alveg að ég yrði ekki þjálfari þá en ég vildi að menn settu sér þessi markmið."

„Þessir yngri gæjar fengu að leika sér aðeins hjá mér, það var ekki þessi strangi agi kannski, en það var samt alltaf agi. Það er bull að það hafi verið agaleysi. Þessir gæjar höfðu hæfileika og voru metnaðarfullir. Liðið komst síðan fyrr á stórmót en ég hélt. Það var þvílíkur happafengur þegar Lars kom með alla þessa reynslu. Þessi kynslóð var þá búin að spila þessa X reynslu og það var frábært að fá Lars sem kemur úr þessu landsliðsumhverfi,"
sagði Ólafur en hann er heilt yfir ánægður með tíma sinn með landsliðið.

„Það voru sumir hlutir sem voru ekki góðir en það sem stendur upp úr er að þetta var hrikalega gaman og geysilega lærdómsríkur tími fyrir mig. Ég kynntist fullt af frábæru fólki og frábærum fótboltamönnum. Það var gaman að fara með landsliðinu og spila gegn stórum þjóðum. Það var ótrúlega gaman og gefandi. Tíminn með landsliðinu var mjög skemmtilegur líka og það voru fleiri stundir tímar sem voru skemmtilegar en ekki. Tíminn þar var mjög góður," sagði Ólafur í Návígi.

Ólafur ræðir nánar um tíma sinn með landsliðið í Návígi í dag.


Til að nálgast þættina í Apple tækjum þarf einungis að leita að "Fótbolti.net" í iTunes Podcast, eða sambærilegum forritum s.s Overcast.

Á sama hátt er hægt að nálgast þættina í Android tækjum með því að nota sambærileg forrit, s.s Pocket Casts eða Podcast Addict, og leita að "Fótbolti.net".


Fyrri návígi:
Heimir Guðjónsson - Fyrri hluti
Heimir Guðjónsson - Seinni hluti
Heimir Hallgrímsson
Athugasemdir
banner
banner
banner