banner
   fim 27. júní 2019 09:47
Elvar Geir Magnússon
Chelsea ætlar að kaupa Kovacic
Mateo Kovacic.
Mateo Kovacic.
Mynd: Getty Images
Talið er að Chelsea muni kaupa Mateo Kovacic, miðjumann Real Madrid, þrátt fyrir að vera í tveggja glugga kaupbanni. Þetta kemur fram á BBC.

Kovacic var hjá Chelsea á lánssamningi og er því skráður í félagið. Ef gengið er frá kaupum á honum áður en lánssamningurinn rennur út um mánaðamótin eru kaupin skráð lögleg og fara framhjá kaupbanninu.

Kovacic mun kosta um 40 milljónir punda.

Chelsea er í tveggja glugga kaupbanni en hefur áfrýjað þeim dómi til alþjóða íþróttadómstólsins. Félagið var dæmt fyrir brot á reglum um samninga við leikmenn undir átján ára aldri.

Kovacic lék 32 úrvalsdeildarleiki fyrir Chelsea á síðasta tímabili en frammistaða hans var misjöfn.

Talið er að Chelsea muni staðfesta Frank Lampard sem nýjan stjóra á næstu dögum. Félagið hefur þegar fengið til sín Christian Pulisic fyrir nýtt tímabil en hann kemur frá Dortmund. Kaupin á bandaríska landsliðsmanninum voru frágengin áður en kaupbannið var dæmt.
Athugasemdir
banner
banner
banner