Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
banner
   þri 10. desember 2019 21:07
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Skil ekki hvernig Mo klúðraði þessum færum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp var kátur eftir 0-2 sigur Liverpool í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar gegn RB Salzburg fyrr í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var galopinn og komust bæði lið nálægt því að skora en staðan markalaus í leikhlé. Liverpool stjórnaði seinni hálfleik frá upphafi til enda og verðskuldaði sigurinn.

„Þetta var erfiður leikur. Andstæðingarnir byrjuðu mjög vel og áttu frábæran fyrri hálfleik en réðu ekki við ákefðina í seinni hálfleik," sagði Klopp að leikslokum.

„Við skoruðum tvö frábær mörk en hefðum getað skorað sex eða sjö, það var klikkað. Við unnum leikinn, við unnum riðilinn, allt í góðu."

Klopp furðaði sig sérstaklega á frammistöðu Mohamed Salah í leiknum. Egyptinn fékk urmul færa og klúðraði dauðafærum en skoraði svo gífurlega erfitt mark úr þröngu færi.

„Ég hef ekki hugmynd um hvernig Mo tókst að klúðra þessum færum en ég skil heldur ekki hvernig hann skoraði þetta mark. Hann skoraði úr erfiðasta færi kvöldsins en klúðraði þeim auðveldustu."

Sadio Mane var valinn maður leiksins en hann lagði fyrsta markið upp fyrir Naby Keita og var líflegur allan tímann.

„Þetta var erfiður leikur en við náðum að skapa mikið af færum. Við erum ánægðir. Ég er ánægður fyrir hönd Naby," sagði Mane, sem lék fyrir Salzburg í tvö ár áður en hann skipti yfir til Southampton í enska boltanum.

„Það er alltaf gaman að koma aftur hingað því hérna hófst ferillinn minn af alvöru. Ég er mjög þakklátur félaginu og stuðningsmönnum.

„Sorry strákar en við urðum að gera þetta."


E-riðill:
1. Liverpool 13 stig (13-8)
2. Napoli 12 stig (11-4)
3. Salzburg 7 stig (16-13)
4. Genk 1 stig (5-20)
Athugasemdir
banner
banner