Liverpool vill Summerville - Newcastle reynir við landsliðsmenn - McKenna, Maresca og Frank á blaði Chelsea
banner
   mið 01. febrúar 2023 15:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Arnór Gauti skoðar möguleikana - „Mjög spennandi ef það dettur"
Arnór Gauti Ragnarsson.
Arnór Gauti Ragnarsson.
Mynd: Hönefoss
Í leik með Aftureldingu.
Í leik með Aftureldingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það kom til greina að vera áfram hjá Hönefoss en ég var ekki alveg nægilega spenntur fyrir því á endanum. Félagið var að hugsa annað en ég'
'Það kom til greina að vera áfram hjá Hönefoss en ég var ekki alveg nægilega spenntur fyrir því á endanum. Félagið var að hugsa annað en ég'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnar marki með Aftureldingu.
Fagnar marki með Aftureldingu.
Mynd: Raggi Óla
'Þetta er svo gaman'
'Þetta er svo gaman'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er áhugi hjá tveimur eða þremur félögum erlendis sem ég veit af. Ég er að melta það hvort það sé eitthvað bitastætt," segir sóknarmaðurinn Arnór Gauti Ragnarsson í samtali við Fótbolta.net.

Hann er að skoða möguleika sína eftir eitt tímabil með Hönefoss í Noregi. Hann verður ekki áfram þar þrátt fyrir að hafa átt gott tímabil persónulega.

Sjá einnig:
Arnór Gauti: Ef ekki núna, hvenær þá?

Ótrúlega furðulegt tímabil
Hönefoss hafnaði í sjöunda sæti af 14 liðum í riðli sínum í D-deildinni í Noregi en Arnór Gauti skoraði tíu mörk fyrir liðið í 20 leikjum.

„Tímabilið í Noregi gekk mjög vel. Þetta var ótrúlega furðulegt tímabil. Þjálfarinn var rekinn eftir fjóra leiki. Við misstum einhver 16 stig eftir 90. mínútu yfir tímabilið. Þetta var skrítið, en mér gekk mjög vel. Ég hefði viljað skora enn fleiri mörk, en það er stundum ekki hægt," segir Arnór og bætir við:

„Þetta var lærdómsríkara en ég bjóst við, að standa á eigin fótum þarna úti. Það er ekkert hótel mamma sem maður gat leitað í. Þetta var meira þroskandi en eitthvað annað."

Hann verður þó ekki áfram í herbúðum Hönefoss.

„Það kom til greina að vera áfram hjá Hönefoss en ég var ekki alveg nægilega spenntur fyrir því á endanum. Félagið var að hugsa annað en ég. Það var Íslendingur með mér þarna úti. Marko Valdimar Jankovic var aðstoðarþjálfari og hann hjálpaði mér mjög mikið. Hann er ekki lengur eins mikið í kringum þetta og það var ekki eins heillandi að vera áfram eftir það. Það kom til greina en það var ekki nógu spennandi miðað við það að fara eitthvert annað eða að koma heim."

Umgjörðin virkilega góð
Hönefoss er ekki lítið félag þó það sé í fjórðu efstu deild um þessar mundir. Fyrrum eigendur stóðu ekki vel að rekstri félagsins og Hönefoss sökk niður. Núna er það að reyna að vinna sig aftur upp með ríkan eiganda.

„Umgjörðin hjá Höneföss er góð. Þetta er stórt félag sem í rangar hendur í rauninni. Félagið fór niður og niður um deildir út af því," segir Arnór.

„Umgjörðin er hjá félagi sem er í efstu eða næst efstu deild. Ég held að eigandinn sé 27. ríkasti maður Noregs og það er nóg til af peningum. Þetta félag borgar meira en nokkur félög í næst efstu deild Noregs. Ég þurfti ekki að vera í neinni aukavinnu. Það var mjög gott að geta nýtt eitt ár í að æfa tvisvar eða þrisvar á dag og sjá um sig sem atvinnumann."

Hvernig eru gæðin í deildinni sem liðið er að spila í?

„Við vorum að spila á móti Molde 2 og svona. Það voru að spila þarna leikmenn sem við erum að fara að sjá í norsku úrvalsdeildinni eftir stuttan tíma. Svo voru líka leikmenn þarna með aðeins minni gæði. Haaland var að spila með Molde 2 og gerði vel. Maður sá nokkra leikmenn þarna og hugsaði: 'Ég ætla að muna nafnið á þessum'."

Gæti komið heim
Það er ekki útilokað að Arnór, sem er 25 ára gamall, komi heim ef spennandi tækifæri býðst hér á Íslandi. Það er líka möguleiki á því að vera áfram úti, en hann er að melta stöðuna og skoða það hvort tilboðin erlendis séu nógu spennandi til þess að fara í ævintýri.

„Það er áhugi í Noregi og annars staðar líka - fyrir utan Skandinavíu. Það er mjög spennandi ef það dettur. Ef ekki, þá fer maður bara heim og það er líka spennandi."

„Ég er búinn að heyra aðeins í félögum á Íslandi. Ég er búinn að vera að æfa með Víkingum en sá hópur er bara svo stór og flottur að maður býst ekki við að fara þangað. Ég er bara að halda mér í formi þar. Það eru einhver félög búin að hafa samband."

„Það er alltaf markmiðið að vera í Bestu deildinni ef maður kemur heim, en svo sér maður hvað hentar og hver spilatíminn er. Maður vill leika sér í fótbolta og spila á eins háu stigi og maður getur."

Er hann er spurður hvort er meira heillandi á þessum tímapunkti segir hann að það séu kostir og gallar við að spila fótbolta í útlöndum og á Íslandi.

„Þetta hefur bæði kosti og galla. Á þessum aldri mun maður samt eiginlega aldrei sjá eftir því að taka slaginn í ævintýrinu. Það er alltaf hægt að koma heim. Maður vill nýta þessi ár þegar maður er ekki með neinar skuldbindingar í það að þroskast og skoða heiminn. Báðir kostir eru samt heillandi."

Þetta er svo gaman
Sóknarmaðurinn sagði frá því í fyrra að hann hefði á ákveðnum tímapunkti misst gleðina í fótboltanum vegna meiðsla sem voru að hrjá hann. Hann fann gleðina aftur er hann lék með uppeldisfélagi sínu, Aftureldingu, sumarið 2021.

„Ég finn enn fyrir gleðinni við að spila fótbolta og hungrið til að gera betur er meira en það var," segir Arnór.

„Þetta var orðið helvíti þungt og róðurinn mjög þungur í meiðslunum. Maður var á báðum áttum hvort maður ætti að segja þetta gott eða ekki. Þetta ævintýri og tíminn með Aftureldingu ýtir manni lengra í því að vilja ná lengra frekar en að hengja upp skóna. Það er enn nóg eftir, algjörlega. Svona tækifæri sýnir manni hversu gaman er að spila og æfa fótbolta. Þetta er svo gaman," sagði sóknarmaðurinn öflugi að lokum en það verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir næst.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner