Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 01. ágúst 2020 18:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enski bikarinn: Arsenal bikarmeistari
Bikarinn á loft!
Bikarinn á loft!
Mynd: Getty Images
Kovacic fékk seinna gula spjald sitt fyrir litlar sakir.
Kovacic fékk seinna gula spjald sitt fyrir litlar sakir.
Mynd: Getty Images
Arsenal 2 - 1 Chelsea
0-1 Christian Pulisic ('5 )
1-1 Pierre Emerick Aubameyang ('28 , víti)
2-1 Pierre Emerick Aubameyang ('67 )
Rautt spjald: Mateo Kovacic, Chelsea ('73)

Arsenal vann í kvöld sinn fyrsta titil undir stjórn Mikel Arteta. Liðið bar sigur úr býtum gegn Chelsea í úrslitaleik þeirrar elstu og virtustu, ensku bikarkeppninnar.

Leikurinn byrjaði hins vegar ekki vel fyrir Arsenal því Christian Pulisic skoraði eftir aðeins fimm mínútna leik eftir undirbúning frá Olivier Giroud. Bandaríkjamaðurinn fagnaði af mikilli innlifun en hann átti ekki eftir að fagna í leikslok því Arsenal sneri við taflinu.

Arsenal fékk aukinn kraft eftir drykkjarpásu sem var tekin eftir rúmlega 20 mínútu og á 28. mínútu jafnaði Pierre-Emerick Aubameyang af vítapunktinum eftir að Cesar Azpilicueta braut af sér innan teigs. Azpilicueta fékk að líta gula spjaldið fyrir brotið en hann þurfti nokkrum mínútum síðar að fara meiddur af velli.

Það var 1-1 í hálfleik. Eftir rúmar 20 mínútur í síðari hálfleik komst Arsenal í 2-1 og var Aubameyang aftur á ferðinni. Hector Bellerin hljóp upp völlinn og kom boltanum á Nicolas Pepe sem setti hann á Aubameyang. Sóknarmaðurinn fór illa með Kurt Zouma og kom boltanum svo í netið.

Andreas Christiansen, lá eftir einvígi við Bellerin í aðdraganda marksins en ekkert var dæmt á það og markið fékk að standa.

Stuttu síðar fékk Mateo Kovacic, miðjumaður Chelsea, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Kovacic hefði hins vegar aldrei átt að fá seinna gula spjaldið því það var aldrei brot en VAR sá sér ekki knúið að breyta dómnum.

Einum færri náði Chelsea ekki að jafna og lokatölur 2-1 fyrir Arsenal sem er bikarmeistari og þar með er ljóst að liðið fer í Evrópudeildina á næsta tímabili. Úlfarnir, liðið sem hafnaði í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fara ekki í Evrópudeildina en eiga möguleika á því að fara í Meistaradeildina ef þeir vinna Evrópudeildina í ágúst.

Arsenal hefur unnið FA-bikarinn 14 sinnum, oftast allra félaga.
Athugasemdir
banner