Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 01. október 2022 13:02
Ívan Guðjón Baldursson
Gínea fær ekki að hýsa Afríkumótið 2025
Patrice Motsepe á sínum heimavelli.
Patrice Motsepe á sínum heimavelli.
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Gínea átti að hýsa Afríkumótið í fyrsta sinn árið 2025 en fær ekki að gera það vegna þess að landið er ekki talið geta verið tilbúið í tæka tíð. Það vantar leikvanga, samgöngur og fjármagn til að byggja.


Afríska knattspyrnusambandið greindi frá þessu í morgun eftir fund á milli Colonel Mamady Doumbouya, bráðabirgða forsætisráðherra Gíneu, og Patrice Motsepe, forseta afríska knattspyrnusambandsins.

Aðrar Afríkuþjóðir geta því aftur farið að keppast um að hýsa mótið. Í þetta sinn verður valin þjóð sem er nær því að vera tilbúin með alla þá leikvanga sem þarf og með nægt fjármagn til að byggja nýja.

„Ég heimsótti Gíneu af virðingu við landið til að ræða framtíðarsamstarf á milli afríska knattspyrnusambandsins og þjóðarinnar við að byggja þá leikvanga og samgöngur sem þarf til að geta haldið Afríkumót í framtíðinni," sagði Motsepe meðal annars í yfirlýsingu.

Gínea er meðal fátækari þjóða Afríku en stefnir þó enn að því að halda sitt fyrsta stórmót á næsta áratugi.

Gínea fékk upprunalega réttinn til að halda Afríkumótið 2023 á sama tíma og Kamerún öðlaðist réttinn fyrir Afríkumótinu 2019 og Fílabeinsströndin 2021. Þessi áraröð frestaðist eftir að Kamerún fékk ekki að hýsa mótið 2019 og var mótið haldið í Egyptalandi í staðinn.

Kamerún hélt því mótið 2021 (haldið 2022 útaf Covid) og mun Fílabeinsströndin halda það 2023 (fært til 2024) en Gínea getur ekki verið tilbúin árið 2025.

Það er aðeins ár síðan það var valdarán í Gíneu þegar fyrrnefndur Doumbouya hrifsaði völdin til sín frá einræðisherranum Alpha Conde. Doumbouya hefur lofað fólkinu í landinu lýðræðislegum kosningum innan þriggja ára.


Athugasemdir
banner