Real Madrid vill Rodri, Trent og Saliba - Karim Adeyemi orðaður við Man Utd - Newcastle vill Gomes
banner
   sun 01. október 2023 23:40
Ívan Guðjón Baldursson
Berbatov vill taka við knattspyrnusambandinu í Búlgaríu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Dimitar Berbatov og Stiliyan Petrov eru goðsagnir í Búlgaríu og voru samherjar á gullárum búlgarska landsliðsins. Þeir eru hættir að spila fótbolta en eru mjög ósáttir með stjórn búlgarska knattspyrnusambandsins vegna þeirra fordóma sem fá að þrífast þar inni.

Petrov gagnrýndi knattspyrnusambandið í Búlgaríu harkalega með færslum á samfélagsmiðlum í febrúar síðastliðnum, sem Berbatov tók undir. Þeir tjáðu sig einnig báðir nýlega, eftir að Búlgaría tapaði 2-1 gegn Svartfjallalandi í undankeppni EM.

Þjálfari Búlgaríu var rekinn eftir tapið og voru Petrov og Berbatov snöggir að gagnrýna ákvörðun knattspyrnusambandsins. „Núna erum við að skipta um landsliðsþjálfara enn eina ferðina. Nýr maður kemur inn fyrir gamlan, en stjórn knattspyrnusambandsins helst sú sama. Hún tekur ennþá sömu úreltu og vanhæfu ákvarðanirnar og við munum ekki geta haldið með landsliðinu okkar fyrr en þessum stjórnendum er hent út og þeir dregnir til ábyrgðar fyrir öll sín mistök í starfi," sagði reiður Petrov.

Berbatov vill breyta hvernig knattspyrnusambandið starfar og hefur því ákveðið að bjóða sig fram í forsetaembættið. Petrov styður hann heilshugar og eru taldar góðar líkur á að Berbatov standi uppi sem sigurvegari. Hann mun þá taka yfir af hinum gríðarlega umdeilda Borislav Mihaylov.

„Það er eins og FIFA bregðist einungis við atvikum þegar sambandið finnur fyrir mikilli pressu frá almenningi," sagði Berbatov þegar hann var spurður út í Mihaylov forseta knattspyrnusambandsins í Búlgaríu, sem er meðal annars ásakaður um spillingu og kynþáttafordóma.

„Það lítur illa út fyrir FIFA og UEFA að taka þessu máli ekki af meiri alvöru. Búlgaría er partur af báðum þessum knattspyrnusamböndum og ætli að spurningin sé ekki: 'UEFA, hversu stóran skandal þarf forseti knattspyrnusambands í Austur-Evrópu að gera til að fá refsingu?'
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner