Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 01. nóvember 2019 12:36
Magnús Már Einarsson
Klopp útilokar að spila á tveimur liðum - Ræðir álag á leikmönnum
Jurgen Klopp.
Jurgen Klopp.
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir ekki ljóst hvenær leikur liðsins gegn Aston Villa í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins fer fram. 8-liða úrslitin í deildabikarnum eru á dagskrá miðvikudaginn 18. desember en sama dag á Liverpool leik í undanúrslitum á HM félagsliða í Katar.

Hugmynd kom upp í enskum fjölmiðlum um að Liverpool myndi spila á ungu liði gegn Aston Villa á sama tíma og aðalliðið myndi fara til Katar. Klopp segir það ómögulegt.

„Við höfum rætt þetta og við verðum að gera það því við höfum ekki mikinn tíma til að taka ákvörðun. Ef við spilum í deildabikarnum þegar við erum í Katar þá eru það tvö mismunandi lið. En við getum ekki skilið leikmenn eftir heima fyrir deildabikarinn," sagði Klopp.

„Við eigum tvo leiki á skömmum tíma og það er ekki eins og við getum farið til Katar með ellefu leikmenn. Þetta virkar ekki þannig. Við verðum að taka ákvörðun."

Leikjaplan Liverpool er mjög þétt næstu mánuðina og Klopp telur að of mikið leikjaálag hafi áhrif á leikmenn.

„Þetta er algjörlega augljóst og allir sem eru í leiknum vita þetta. Enginn vill snerta á þessu og enginn vill ræða þetta. Síðan ákveður UEFA að búa til Þjóðadeildina og láta öfluga leikmenn þá fá nokkra erfiða leiki til viðbótar," sagði Klopp.

„Fólk segir síðan að þú þurfir stærri hóp. Leikurinn er ekki búinn til fyrir stærri hópa. Í dag er ójafnvægi á stærð hópa, keppnunum sem þú tekur þátt í og bilinu á milli þess að strákarnir fái þá hvíld sem þeir þurfa."

„Þeir fá tvær vikur í frí á ári í þessari líkamlega erfiðu vinnu. Ég tel að það séu nokkrar lausnir mögulegar en deildin þarf að setjast niður og husga um leikmenn en kannski ekki peninga. Einhver þarf að hugsa út í leikjafjöldann."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner