Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   þri 01. desember 2020 18:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jónsi og Sveinn Elías aðstoða Orra hjá Þór (Staðfest)
Lengjudeildin
Sveinn Elías í leik með Þór síðasta sumar.
Sveinn Elías í leik með Þór síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þór hefur ráðið tvo nýja aðstoðarþjálfara sem verða Orra Frey Hjaltalín innan handar.

Þeir Jón Stefán Jónsson og Sveinn Elías Jónsson munu aðstoða Orra við þjálfun liðsins, sem leikur í Lengjudeild karla. Þetta kemur fram á Akureyri.net.

Orri Freyr var á dögunum ráðinn þjálfari Þórs og skrifaði hann undir þriggja ára samning. Hann tók við liðinu af Páli Viðari Gíslasyni, sem stýrði Þór á síðustu leiktíð.

Orri, sem varð fertugur 1. júlí, lék með Þór upp yngri flokkana og lengi í meistaraflokki. Þetta er hans fyrsta þjálfarastarf í meistaraflokki.

Jón Stefán hefur lengi starfað við þjálfun. Hann hefur þjálfað hjá Þór. Val, Haukum og nú síðast Tindastóli þar sem hann gerði frábæra hluti með meistaraflokk kvenna ásamt Guðna Þór Einarssyni. Kvennalið Tindastóls spilar í Pepsi Max-deild kvenna á næstu leiktíð. Eftir tímabilið hætti Jónsi þjálfun Tindastóls.

„Eftir þrjú ár af ótrúlegum ævintýrum finnst mér kominn tími til að láta staðar numið. Mér finnst mikilvægt að stelpurnar okkar fái þjálfara sem getur verið búsettur á Króknum og þar sem algjörlega útséð er um það v/vinnu minnar þá ákvað ég að setja hagsmuni stelpnanna framar mínum eigin," sagði Jónsi þegar hann hætti með Tindastól.

Sveinn Elías ættu allir Þórsarar að kannast við. Hann spilaði með Þór frá 2009 til 2020 og var hann fyrirliði liðsins síðustu ár. Hann lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og verður núna aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Akureyrarliðinu.

Þór hafnaði í fimmta sæti Lengjudeildarinnar á síðasta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner