þri 02. mars 2021 12:00
Magnús Már Einarsson
Sorgarsögu Valencia að ljúka? - Prinsinn í Malasíu vill kaupa
Peter Lim er eigandi Valencia í dag.
Peter Lim er eigandi Valencia í dag.
Mynd: Getty Images
Johor Tunku Ismail ibni Sultan Ibrahim, Prinsinn í Malasíu, hefur lýst yfir áhuga á að kaupa spænska félagið Valencia af viðskiptamanninum Peter Lim.

Valencia var eitt sterkasta lið Evrópu upp úr aldamótum en liðið vann úrvalsdeildina á Spáni 2001–02 og 2003–04. Félagið má hins vegar muna sinn fífil fegurri í dag.

Lim keypti Valencia árið 2014 og hefur síðan þá skipt sjö sinnum um þjálfara.

Lim hefur selt marga leikmenn frá Valencia til að minnka skuldir félagsins. Í fyrrasumar voru leikmenn eins og Ferran Torres, Dani Parejo og Rodrigo seldir en engum fjárhæðum var eytt í nýja leikmenn í staðinn.

Það hefur heldur betur haft áhrif en Valencia tapaði 3-0 gegn Getafe um helgina og er í dag í 14. sæti í úrvalsdeildinni, fimm stigum frá falli.

Lim, sem er frá Singapúr, hefur ekki gefið í skyn að hann vilji selja félagið en ósk stuðningsmanna er hins vegar að fá nýjan eiganda.

Prinsinn í Malasíu gæti keypt Valencia en hann er í dag eigandi JDTFC sem hefur verið sigursælt félag í heimalandinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner