Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 02. maí 2021 21:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Blikar stóðust ekki pressuna og KR með blóð á tönnunum
Blikarnir eru taldir líklegir til að vinna titilinn.
Blikarnir eru taldir líklegir til að vinna titilinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór Hauksson.
Jón Þór Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR fer frábærlega af stað í þessu Íslandsmóti en þeir lögðu Breiðablik að velli á Kópavogsvelli í kvöld.

Óskar Örn Hauksson og Kennie Chopart skoruðu mörkin snemma leiks í 2-0 sigri KR. Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks, var ekki sannfærandi í mörkunum en Blikarnir voru heilt yfir ekki góðir í þessum leik.

Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari kvenna, telur að um sé að ræða spennufall hjá Blikum en mikið hefur verið látið með þá fyrir mót, það er að segja þeir eru taldir mjög líklegir til að berjast um þann stóra - Íslandsmeistaratitilinn - í sumar.

„Blikarnir voru úrræðalausir langa kafla í þessum leik. Það var athyglisvert að sjá hvaða spilleiðir þeir fóru. Þeir fóru oftar en ekki utan á KR-ingana sem endaði með fyrirgjöfum sem skiluðu engu. Leikur Breiðabliks olli mér vonbrigðum," sagði Jón Þór og Atli Viðar Björnsson tók undir það á Stöð 2 Sport.

„Þeir voru lengi að taka ákvarðanir og tóku margar snertingar áður en þeir fóru í aðgerðir sínar. Þeir voru hikandi og ósannfærandi."

„Að einhverju leyti er hægt að útskýra þetta með því að Blikarnir stóðust ekki pressuna í þessum leik. Það er mikið búið að tala um þá fyrir þetta mót, eingöngu búið að tala um þá fyrir þennan leik. Það er talað um þá sem líklegasta til að vinna þennan titil, alla vega ásamt Val. Það hefur verið minna talað um KR og KR-ingarnir eru bara með blóð á tönnunum. Þeir mæta inn í þennan leik þannig," sagði Jón Þór.

„Blikarnir náðu aldrei krafti í sinn leik, alla vega ekki í fyrri hálfleik, og það var ekkert 'attitude' í þeim að koma til baka eða bíta almennilega frá sér í áhlaupi KR í upphafi leiks."

„Ég held að það sé ekki hægt að útskýra þetta öðruvísi en bara: Spennufall, algjört hjá Blikunum," sagði Jón jafnframt en það verður gaman að sjá hvernig Blikarnir svara í næsta leik.

Hægt er að lesa um leikinn með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner