„Við byrjuðum mjög vel og mörkin sem við skoruðum frábær. Í seinni part fyrri hálfleiks fannst mér við missa aðeins tökin á boltanum og þeir fengu fullmikið af föstum leikatriðum í kringum teiginn okkar. Í seinni hálfleik reyndum við að leiðrétta það og það gekk bara frábærlega. Þeir ógnuðu okkur ekki mikið í seinni hálfleiknum og við bara bættum við mörkum, gullfallegum mörkum og vorum ótrúlega góðir á boltann.“
Lestu um leikinn: ÍA 1 - 5 Leiknir R.
Sagði Vigfús Geir Jósefsson þjáfari Leiknis eftir frábæran 5-1 sigur Leiknis á liði ÍA á Norðurálsvellinum á Akranesi í kvöld um leik sinna manna.
Sóknarleikur Leiknis í kvöld var hreint út sagt frábær í kvöld og áttu Skagamenn fá svör gegn þeim. Aðeins tíminn takmarkaði fjölda marka sem Leiknir skoraði í kvöld en þau hefðu eflaust verið talsvert fleiri væri leiktíminn lengri.
„Donni aðstoðarmaður minn talaði um að hann hefði viljað spila lengur. Okkur leið þannig að við myndum hlaupa í gegnum þá í hvert einasta skipti. Ég er bara svo ótrúlega ánægður með strákanna og þetta er svo stórt skref fyrir okkur. Það eru bara nokkrar vikur síðan að við vorum í vandræðum en strákarnir hafa lagt ótrúlega hart að sér og lagt mikla vinnu í að bæta sig.“
Vandræðin sem Vigfús talar um virðist Leiknisliðið hafa leyst farsællega en alls ekki er langt síðan að liðið sem nú situr í fjórða sæti deildarinnar var í fallsæti. Hvernig líður Vigfúsi í dag miðað við þá?
„Það er ótrúlegur munur, við vorum að tala um þegar við unnum Ægi á 92. mínútu og þá var umræða hvort ég myndi verða áfram með liðið. Við vinnum þann leik og spennufallið var svo rosalegt að maður gat varla fagnað sigrinum og maður bara lifði af. Svo er maður kominn núna þar sem kassinn er svo mikið úti og mikið loft í manni og sjálfstraust að ég get eiginlega ekki lýst því. “
Sagði Vigfús en allt viðtalið við hann má sjá hér að ofan.
Athugasemdir
























