Munu Man Utd og Liverpool berjast um Eze? - Pochettino tekur við Bandaríkjunum - Antony gæti verið lánaður til Tyrklands
   mán 02. september 2024 22:40
Brynjar Ingi Erluson
Ingibjörg til Bröndby (Staðfest)
Mynd: Bröndby
Landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir hefur skrifað undir samning við danska félagið Bröndby en hann gildir út 2025. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins í kvöld.

Ingibjörg er 26 ára gömul og spilar stöðu miðvarðar en hún kemur til Bröndby frá Duisburg í Þýskalandi.

Hún er uppalin í Grindavík og spilaði sinn fyrsta meistaraflokklseik með Grindvíkingum aðeins 13 ára gömul áður en hún samdi við Breiðablik árið 2012.

Þar spilaði hún í fimm ár og varð deildarmeistari einu sinni ásamt því að vinna bikarinn tvisvar.

Árið 2017 hélt hún út í atvinnumennsku og samdi við Djurgården í Svíþjóð áður en hún skipti ári síðar yfir í Vålerenga í Noregi þar sem hún lék mikilvægt hlutverk og hjálpaði liðinu að vinna deild- og bikar í tvígang.

Í byrjun þessa árs gekk hún í raðir Duisburg í Þýskalandi en liðið var í afar erfiðri stöðu í deildinni þegar hún kom og fór það svo að það féll niður í B-deildina.

Landsliðskonan ákvað því að færa sig um set og hefur nú samið við danska stórliðið Bröndby. EIns og áður kom fram er samningurinn til loka árs 2025.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, samherji Ingibjargar í landsliðinu, er á mála hjá Bröndby. Kristín Dís Árnadóttir var hjá félaginu en yfirgaf það í sumar og samdi við Breiðablik.

Bröndy er í 4. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 4 stig eftir fjórar umferðir.


Athugasemdir
banner
banner
banner