Haaland verður með riftunarákvæði - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Antony til Newcastle?
banner
   mán 02. september 2024 23:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Pálmi Rafn: Frábært að sjá börnin sín ná sínum markmiðum
'Það var ótrúlega mikið stolt sem ég upplifði'
'Það var ótrúlega mikið stolt sem ég upplifði'
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
14 ára og tæplega fimm mánaða.
14 ára og tæplega fimm mánaða.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Alexander í upphitun í gær.
Alexander í upphitun í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi Rafn í baráttunni við Gary Teale í landsleik.
Pálmi Rafn í baráttunni við Gary Teale í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
'Þetta er búið að vera eitt af hans markmiðum, ótrúlegt en satt'
'Þetta er búið að vera eitt af hans markmiðum, ótrúlegt en satt'
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
'Ég held að hann hafi töluvert fleiri vopn í vopnabúrinu en ég hafði. Ef hann heldur rétt á spöðunum þá held ég að hann geti gert aðra hluti.'
'Ég held að hann hafi töluvert fleiri vopn í vopnabúrinu en ég hafði. Ef hann heldur rétt á spöðunum þá held ég að hann geti gert aðra hluti.'
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Alexander Rafn Pálmason lék í gær sinn fyrsta leik í efstu deild. Hann var í gær 14 ára og 147 daga gamall og bætti met Gils Gíslaslonar sem var 171 degi eldri þegar hann kom inn sem varamaður hjá FH árið 2022.

Alexander kom inn á í uppbótartíma þegar KR lagði ÍA á Meistaravöllum í gær. Fótbolti.net ræddi við Pálma Rafn Pálmason sem er fyrrum leikmaður og þjálfari KR og núverandi framkvæmdastjóri félagsins. Pálmi er faðir Alexanders.

Lestu um leikinn: KR 4 -  2 ÍA

Gríðarlega stoltur
„Ég reyndar sá ekki Alexander koma inn á. Ég var kominn fyrir framan stúkuna og ætlaði að koma í veg fyrir að krakkarnir myndu hlaupa inn á völlinn í leikslok, þannig ég tók ekki eftir skiptingunni. Ég leit svo aftur til baka á völlinn og sá hann skoppandi á vellinum. Það var ótrúlega mikið stolt sem ég upplifði, gríðarlega stoltur af stráknum, engin spurning," segir Pálmi Rafn.

Ómögulegt að lesa í Óskar Hrafn
Þetta var ekki fyrsti leikur Alexanders á varamannabekknum hjá KR. Hafði Pálmi einhverja hugmynd um að gærdagurinn yrði dagurinn þar sem fyrsti leikurinn kæmi?

„Nei, alls ekki. Það er algjörlega ómögulegt að lesa í Óskar Hrafn Þorvaldsson. Ég reiknaði alls ekkert með því. Sérstaklega þegar staðan var svona, hjartað var í háum slætti."

Á allt hrós skilið
Hvernig er að sjá strákinn sinn ná því að vera sá yngsti til að spila í efstu deild?

„Það er auðvitað gaman, sérstaklega fyrir hann. Hann er búinn að vinna gríðarlega hart að þessu sjálfur og á allt hrós skilið fyrir hvernig hann hefur séð um sína hluti; hvernig hann hefur æft og hvernig manneskja hann er. Hann er búinn að vinna þetta inn sjálfur."

„Auðvitað heyrir maður margt, margir sem hafa skoðanir og við Íslendingar erum snillingar í því að tala niður aðra og hafa skoðanir á öllum hlutum. En hann er búinn að vera góður í að loka á allt svoleiðis, hugsar bara um sig og hefur unnið að þessu sjálfur - sama hvað hver og einn heldur."

„Ég er líka gríðarlega stoltur af því hvað hann er heill í hausnum. Það er númer 1, 2 og 3 fyrir mér og okkur sem foreldrum, að það sé tilfellið. Það er svo auðvitað gaman fyrir hann síðan að vera góður í fótbolta og fá þennan möguleika."


Pálmi var aðalþjálfari KR í rúman mánuð og var með Alexander á bekknum. Kitlaði að setja hann inn á?

„Nei, ekkert frekar en aðra. Maður auðvitað skiptir þeim inn á sem maður heldur að geti hjálpað liðinu. Það var aldrei neitt sérstakt augnablik til að vera skipta honum sérstaklega inn á frekar en öðrum."

Með töluvert fleiri vopn í vopnabúrinu en sá gamli
Sér Pálmi einhver líkindi í Alexander og sér þegar hann var sjálfur leikmaður?

„Erfitt að segja, en eflaust einhver líkindi. Ég held að hann hafi töluvert fleiri vopn í vopnabúrinu en ég hafði. Ef hann heldur rétt á spöðunum þá held ég að hann geti gert aðra hluti. Ég verð að vera heiðarlegur með það," segir Pálmi.

Pálmi varð á leikmannaferli sínum Íslandsmeistari í tvígang, norskur meistari, atvinnumaður í Noregi í sjö ár og lék átján A-landsleiki.

„Hann hefur helst spilað sem miðjumaður, ýmist sem 'tía' eða 'átta' í gegnum tíðina, auðveldast að lýsa honum sem sóknarsinnuðum miðjumanni."

Pálmi þjálfaði Alexander í 4. flokki. „Hann þekkti því að hafa mig sem þjálfara þegar hann kom inn í meistaraflokkinn. Því miður fyrir hann," sagði Pálmi á léttu nótunum.

Hefði verið ósanngjarnt að taka hann ekki inn í hópinn
Hvernig er fyrir foreldri að þjálfa barnið sitt?

„Mér fannst það nú frekar einfalt. Númer 1, 2 og 3 reyndi ég að vera sanngjarn við hann eins og alla, að hann myndi ekki græða neitt meira en aðrir á því að vera sonur minn, en maður verður líka að passa á ekki heldur að líða fyrir það."

„Þegar hann kom inn í hópinn okkar í sumar þá var hann bara búinn að vinna sér það inn, þannig er það bara. Það hefði verið ósanngjarnt gagnvart honum ef ég hefði ekki tekið hann inn þegar allir aðrir voru á sama máli."

„Ég held að maður eigi bara að vera sem sanngjarnastur og horfa aðeins frá því að þetta sé barnið manns, þetta er einn leikmaður af stórum hópi. Maður þarf að passa sig að láta ekki tilfinningarnar ráða."


Alexander fær að ráða
Pálmi segir að Alexander komi af og til og leiti ráða hjá sér.

„Ég leyfi honum að koma ef hann vill. Þegar ég hef einhverja skoðun á hlutunum, þá er ég duglegur að spyrja hann hvort að hann vilji heyra þær eða ekki, og hingað til hefur hann allavega ekki sagt nei við mig. Ég leyfi honum að stjórna hvenær hann vill fá að heyra mitt álit og hvenær ekki. Mig langar ekki að þröngva einhverju upp á hann sem hann hefur ekki áhuga á. Hann verður að fá að ráða."

Gríðalegur léttir og ótrúlegt stolt
Sigur hjá KR og sonurinn að spila með meistaraflokki í fyrsta skiptið, gat þetta orðið eitthvað mikið betra?

„Nei, í rauninni ekki. Hjartslátturinn fór reyndar aðeins hærra upp, ég var nógu stressaður fyrir, en hjartslátturinn fór enn hærra upp þegar Alexander kom inn á. Mér fannst ég á leiðinni í alltof háan blóðþrýsting. Þegar flautað var til leiksloka var þetta gríðarlegur léttir með sigurinn og auðvitað ótrúlegt stolt að sjá hann vera kominn á þennan stað."

„Þetta er búið að vera eitt af hans markmiðum, ótrúlegt en satt. Það er frábært að sjá börnin sín ná sínum markmiðum, alveg sama hvar það er,"
segir Pálmi.

Alexander var í júlí valinn í úrtakshóp U15 landsliðsins.

Sigurinn í gær var mikilvægur fyrir KR því hann kom liðinu þremur stigum frá fallsæti.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 21 14 4 3 48 - 25 +23 46
2.    Víkingur R. 20 13 4 3 47 - 23 +24 43
3.    Valur 21 10 5 6 49 - 32 +17 35
4.    FH 21 9 5 7 36 - 35 +1 32
5.    ÍA 21 9 4 8 40 - 31 +9 31
6.    Stjarnan 21 9 4 8 39 - 35 +4 31
7.    KA 21 7 6 8 32 - 37 -5 27
8.    Fram 21 7 5 9 28 - 29 -1 26
9.    KR 20 5 6 9 34 - 39 -5 21
10.    HK 21 6 2 13 23 - 51 -28 20
11.    Vestri 21 4 6 11 22 - 42 -20 18
12.    Fylkir 21 4 5 12 26 - 45 -19 17
Athugasemdir
banner
banner
banner