City og Real með augu á Olise - Bentancur að framlengja við Tottenham - Saka fær launahækkun
   fim 02. október 2025 10:00
Elvar Geir Magnússon
78% telja að KR falli - „Strákarnir ætla að vinna Aftureldingu“
Verður KR í Lengjudeildinni á næsta ári?
Verður KR í Lengjudeildinni á næsta ári?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding fagnaði sigri í síðasta leik.
Afturelding fagnaði sigri í síðasta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þriðja síðasta umferðin í Bestu deildinni verður leikin um helgina, áður en kemur að landsleikjaglugganum. Á laugardag klukkan 14 verður svakalegur fallbaráttuslagur á Meistaravöllum þar sem tvö neðstu lið deildarinnar mætast.

KR leikur gegn Aftureldingu þar sem gríðarlega mikið er undir. Ef allt fer á versta veg fyrir KR um helgina verður liðið sex stigum frá öruggu sæti fyrir síðustu tvær umferðirnar.

KR hefur einu sinni fallið
Samkvæmt skoðanakönnun sem var á forsíðu Fótbolta.net þá telja 78% lesenda að KR muni falla en 22% að liðið haldi sér en yfir 2.600 manns tóku þátt.

KR hefur aðeins einu sinni fallið úr efstu deild en það var sumarið 1977. KR hefur verið lengst allra núverandi félaga í efstu deild.


Í aðdraganda leiksins á laugardag rifjar KR upp þegar liðið vann 2-1 sigur gegn Aftureldingu á Meistaravöllum fyrr á tímabilinu. Sýnt er frá fögnuði liðsins í klefanum eftir leik.

„Tveir hlutir! Nr.1 Strákarnir ætla að vinna Aftureldingu á laugardaginn. Nr.2 Þið viljið ekki missa af því," er skrifað á heimasvæði KR á Facebook þar sem miðasala á komandi leik er auglýst.

KR hafði talsverða yfirburði þegar liðið vann Aftureldingu þann 11. ágúst. Hrannar Snær Magnússon kom reyndar Mosfellingum yfir en í seinni hálfleik skoruðu Aron Sigurðarson og Eiður Gauti Sæbjörnsson. Í raun var með ólíkindum að KR skoraði ekki fleiri mörk.

Afturelding mætir eftir langþráðan sigur
Afturelding vann KA í síðustu umferð en það var fyrsti sigur liðsins síðan 23. júní. Andinn hjá Mosfellingum er því væntanlega orðinn mun léttari fyrir leikinn mikilvæga á laugardaginn.

„Það verða hæg heimatökin, strætó númer 15 rúllar í gegnum allan Mosfellsbæinn og fer beint niður á Meistaravelli og stoppar þar fyrir utan svo ég á ekki vön á öðru en að við fáum frábæran stuðning á laugardaginn," sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar í viðtali eftir sigurinn gegn KA.

„Við erum ekkert lagstir niður, það eru þrír leikir eftir af þessu móti, full snemmt að fara fagna einhverju eða gráta eitthvað. Þetta er ennþá pínulítið í okkar höndum, þurfum að sjá til þess að gera það sem við getum gert," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, eftir tap í síðasta leik.

Fyrir okkur hlutlausu verður vonandi boðið upp á svipað stuð og þegar Afturelding og KR mættust í Mosfellsbænum þann 18. maí en hér má sjá svipmyndir úr viðureignum liðanna í sumar.





laugardagur 4. október

Besta-deild karla - Efri hluti
20:00 Valur-Stjarnan (N1-völlurinn Hlíðarenda)

Besta-deild karla - Neðri hluti
14:00 KR-Afturelding (Meistaravellir)
14:00 ÍBV-ÍA (Hásteinsvöllur)

sunnudagur 5. október

Besta-deild karla - Efri hluti
19:15 Breiðablik-Fram (Kópavogsvöllur)
19:15 Víkingur R.-FH (Víkingsvöllur)

Besta-deild karla - Neðri hluti
14:00 KA-Vestri (Greifavöllurinn)
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 24 9 6 9 30 - 29 +1 33
2.    KA 24 9 5 10 35 - 44 -9 32
3.    ÍA 24 9 1 14 33 - 45 -12 28
4.    Vestri 24 8 3 13 23 - 37 -14 27
5.    Afturelding 24 6 7 11 33 - 42 -9 25
6.    KR 24 6 6 12 46 - 58 -12 24
Athugasemdir
banner
banner