Man Utd vill Kane - Arsenal hefur áhuga á Yildiz - Villa vill kaupa Sancho
   fim 25. september 2025 10:15
Kári Snorrason
Stuðningsmenn KR tjá sig um stöðuna - „Hann er sá eini sem getur framkvæmt þessa skurðaðgerð“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Páll Ástvaldsson.
Jóhann Páll Ástvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Saga KR er skin og skúrir.“
„Saga KR er skin og skúrir.“
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Óskar Hrafn er í miklum metum hjá stuðningsmönnum þrátt fyrir slakt gengi.
Óskar Hrafn er í miklum metum hjá stuðningsmönnum þrátt fyrir slakt gengi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Páll Sævar, betur þekktur sem Palli Píla eða röddin.
Páll Sævar, betur þekktur sem Palli Píla eða röddin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mótlæti er til að sigrast á.
Mótlæti er til að sigrast á.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Bogi Ágústsson.
Bogi Ágústsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Kári Eldon.
Jón Kári Eldon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR hefur átt erfitt uppdráttar í sumar og er nú í fallsæti eftir 23 umferðir. Undir stjórn Óskars Hrafns hefur liðið tekið miklum breytingum, en þjálfarinn hefur sjálfur talað um ákveðna vegferð sem er í gangi. Um helgina tapaði KR 4-2 fyrir KA.

Fótbolti.net til fjögurra stuðningsmanna KR til að kanna viðhorf þeirra og trú á liðinu. Við lögðum fyrir þá þessar fimm spurningar:

1) Hvernig metur þú stöðu KR í dag?

2) Ert þú sáttur við vegferð liðsins?

3) Er Óskar Hrafn rétti maðurinn til að leiða KR áfram?

4) Mun KR falla?

5) Ef svo færi að KR myndi falla, hvað myndi það þýða fyrir félagið?


Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður á RÚV

1) Staða KR þegar litið er á stóru myndina er góð. Það er mikill stuðningur og meðbyr í samfélaginu með liðinu. Liðið er með flesta stuðningsmenn á sínum heimaleikjum af öllum félögum á landinu. Þá er meginþorri fótboltaáhugamanna mjög áhugasamur um KR. Tilfinningin er sú að langflestir séu tilbúnir að gera allt til að fá góða tíma í Vesturbæinn.

Það er kominn aukinn kraftur í kvennastarfið á ný. Staða karlaliðsins í töflunni er ekki góð. Það vill enginn KR-ingur sjá liðið í fallsæti. Vesturbærinn hefur hins vegar upplifað miklar hæðir en líka lægðir. Liðið er nógu sterkt til að halda sér uppi og mun sýna það í næstu fjórum úrslitaleikjum.

2) Fyrir tímabil talaði ég um að besta mögulega niðurstaðan væri Evrópa og jafnvel smá bikarævintýri. Versta mögulega niðurstaða væri fallbarátta. Ekki fall heldur fallbarátta. Við vissum miðað við síðasta tímabil að barátta í neðri hlutanum væri möguleiki. KR er annað árið í röð í þessari stöðu.

Fyrri hluta móts var KR skemmtilegasta liðið í deildinni og þá sá maður vegferðina skýrar. Það hefur hægst á liðinu sóknarlega en liðið er að reyna nákvæmlega sömu hluti og í fyrstu umferðunum. Það eru ellefu aðrir þjálfarar í fullu starfi í þessari deild og þeir gera það sem þeir þurfa að gera til að núlla styrkleika KR út.

3) Já, tvímælalaust. Leiðin að velgengni getur verið þyrnum stráð og flakkað fram og aftur. Vesturbæingar kölluðu eftir sínum mönnum heim. Núna eru þeir hér og þurfa að sýna hvað í þeim býr. Munum að Arnar Gunnlaugs endaði í 10. sæti með Víking áður en allt small. Munurinn er sá að athyglin og fárið er mun meira í Vesturbæ en í Fossvogi. Hvert tap telur tífalt á við annars staðar.

Óskar er enn að búta saman og smíða sitt KR-lið. KR er ekki að bjóða feitustu samningana á markaðnum. Í fyrra var farið Zidane y Pavon leiðina en í ár var farið Pavon leiðina. Gleymum því ekki að Stefán Árni, Luke Rae, Jói Bjarna og Eiður Gauti eru allir í því 11 manna liði sem Óskar myndi helst nota. Leikirnir tveir í ár gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks þykja mér best sýna fram á grunninn á því hvað liðið getur orðið undir hans stjórn.

4) Nei. Liðið sýndi það í fyrra að það var of gæðamikið miðað við andstæðingana sína. Það sama verður uppi á teningnum í ár. Endurkoma Eiðs Gauta í liðið mun gjörbreyta sóknarleiknum.

5) Auðvitað væri það ákveðinn heimsendir. Ég skil að tal Magnúsar Orra Schram hafi farið í einhverja KR-inga en tel það þó misskilin orð. Saga KR er skin og skúrir. Eitt sinn var það 31 árs langur skúr. Ef svo fer að KR leiki í Lengjudeild á næsta ári snúa KR-ingar bökum saman og fjölmenna á KR - Völsung

ÍA hefur sýnt að hægt er að vinna Íslandsmeistaratitil eftir að hafa komið upp úr næstefstu deild. Þaðan komu líka á sínum tíma Víkingar og Breiðablik, Íslandsmeistarar síðustu ára. Öll lið í Bestu deild karla í ár hafa verið í næstefstu deild á þessari öld, utan KR.

KR hefur verið í efstu deild samfleytt frá 1979 en næsta lið þar á eftir er FH frá árinu 2001. Árið 1978 var eina skiptið sem liðið hefur leikið í næstefstu deild. Önnur lið hafa verið þar lengur og oftar. Það væri óneitanlega mikið högg fyrir Vesturbæinn að falla. En mótlæti er til að sigrast á.

Páll Sævar Guðjónsson, röddin

1) Staðan er bara grafalvarleg. Í byrjun sumars gekk bara þokkalega vel framan af en þegar Jóhannes Kristinn Bjarnason yfirgaf KR liðið þá hrundi allt saman. Liðið hefur bara ekki fundið neinn takt í neinum leik. Það vantar allan stöðugleika og það er líka ljóst að liðið hefur ekkert sjálfstraust.

2) Nei, ég er ekki sáttur með þessa vegferð. Nú er allt til alls í Vesturbænum. Óskar fékk sitt gervigras og KR-liðið hefur á að skipa góðu þjálfarateymi og einnig er liðið með besta þrekþjálfara landsins en einhverra hluta vegna skilar þetta sér ekki inni á vellinum.

3) Eftir 7-0 leikinn gegn Víkingum var ég ekki sáttur við Óskar Hrafn og hans aðferðafræði í þeim leik. Varnarleikurinn var enginn og leikmenn KR hættu þegar staðan var orðin 0-2 fyrir Víking. Það sem vantar í KR-liðið í dag er einhvern leiðtoga. Það hefur komið mér mest á óvart að Óskar hafi ekki náð að skapa neinn leiðtoga innan liðsins. Þegar liðið lendir í mótlæti verður einhver að stíga upp inni á vellinum og láta í sér heyra.

Lausnin er ekki alltaf að láta þjálfarann fara. Leikmenn þurfa líka að axla ábyrgð í svona stöðu. Ég er bjartsýnn á að það takist núna. Ég ræddi nú við málsmetandi KR-inga strax eftir leikinn gegn Víkingum og sagði að nú yrði að láta Óskar fara, en reiðin hefur nú runnið af mér og ég stend með mínu félagi og öllum þeim sem starfa þar.

4) Já, ég tel það alveg líklegt. Það er erfiður útileikur um helgina gegn ÍA. Skagamenn hafa verið á góðu skriði eftir að Lárus Sigurðsson tók við liðinu. KR verður að vera búið að laga vörnina hjá sér fyrir þann leik. KR er það lið sem hefur fengið á sig mest af mörkum í deildinni og rúmlega helmingur þeirra hefur andstæðingurinn skorað án þess að nokkur KR-ingur standi fyrir framan andstæðinginn til að reyna að verjast.

5) Það er mjög slæm staða að lenda í. Deildin verður ekki söm ef KR-liðið verður ekki meðal þeirra bestu á næsta ári. Það eru allir andstæðingar KR sem elska að spila á Meistaravöllum og hvað þá að taka öll stigin með sér heim. Ég er sannfærður um að ef KR fellur þá mun liðið koma sér strax upp í bestu deild eftir tímabilið 2026.

Bogi Ágústsson, fyrrum fréttaþulur

1) Slæma.

2) Nei.

3) Já, Óskar Hrafn á ekki að hætta.

4) Það er augljóslega veruleg hætta á að KR falli.

5) KR hefur lifað af fall og mun gera það þó svo illa fari. Ekki gleyma að KR hefur orðið Íslandsmeistari oftar en nokkurt annað lið.

Jón Kári Eldon, grafískur hönnuður

1) KR er og verður ávallt stærsta félag landsins. Það er bara eitt Stórveldi á Íslandi og það er KR. Þannig staðan er bara góð og algjör forréttindi að vera KR-ingur.

2) Já ég er virkilega sáttur við vegferð liðsins. Þetta var alltaf að fara vera óþægilegt. Það er í okkar mannlega eðli að vilja vera í bómul, vera í kósý aðstæðum. Þetta er sársaukafullt fyrir marga og ég skil það. En þessi þjáning er tímabundin og við verðum að zooma út.

3) 150%. Hann er sá eini sem getur framkvæmt þessa skurðaðgerð. Opin hjartaaðgerð með stein sem svæfingartæki og skæri til að skera upp. Sá sem framkvæmir hana verður aldrei vinsæll en vonandi munu þeir sem koma á eftir njóta ávaxtanna.

4) KR mun ekki falla. Fall er eitthvað sem ég og mín fjölskylda erum ekki að hugsa um eða hafa áhyggjur af. En hinsvegar áttum við okkur á því að við erum í fallbaráttu og berum virðingu fyrir henni.

5) KR mun ekki falla svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. En af virðingu við spurningunni, spyrjum að leikslokum.
Athugasemdir
banner