
Breiðablik mætir í dag Lausanne í Sambandsdeildinni. Um fyrsta leik af sex er að ræða hjá Breiðabliki í keppninni sem liðið vann sér inn þátttökurétt í með sigrum í tveimur forkeppniseinvígum í sumar. Fótbolti.net ræddi við Kristinn Steindórsson, leikmann Breiðabliks, fyrir leikinn í dag.
Lestu um leikinn: Lausanne 0 - 0 Breiðablik
„Gaman að vera mættir hérna í annað sinn í Sambandsdeildinni, við erum klárir í þetta. Þjálfarateymið er búið að skoða þetta lið vel og sýna okkur á fundum. En það er eitt að mæta liði á vellinum og annað að horfa á þá. Það á eftir að sjá hvernig takturinn er þegar á völlinn er komið.“
Lausenne, eða FC Lausanne-Sport, endaði í 5. sæti svissnesku deildarinnar á síðasta tímabili. Liðið vann þrjú einvígi í forkeppni Sambandsdeildarinnar í sumar. Horfið þið í þennan leik sem vænlegri til árangurs frekar en aðra?
„Nei, ég held ekki. Undirbúningurinn fyrir þennan leik er eins og fyrir aðra, að reyna ná í góð úrslit. Þetta lið er í Sambandsdeildinni en byrjaði illa í deildinni heima, það er kannski erfitt að átta sig nákvæmlega hvar þeir standa. En við förum í þetta til að ná úrslitum svo koma hinir leikirnir þegar þeir koma.“
Markmiðið fyrir Sambandsdeildina skýrt
Til þess að komast áfram í umspil Sambandsdeildarinnar dugði sjö stig flestum liðum, það að komast í umspilið er væntanlega markmiðið.
„Við erum komnir í þessa keppni til að ná sem lengst, það gefur auga leið. Það væri skrýtið að setja markmiðið eitthvað lægra en að komast í umspilið. En eins og ég segi það er ekkert gott að horfa allt of langt fram í tímann og telja stig hér og þar. Við bara sjáum hvað gerist í þessum leik og við rúllum áfram, vonandi pikkum við upp nógu mörg stig til að eiga séns á áframhaldandi þátttöku.“
Þú hefur þá ekki reiknað stig út frá andstæðingum?
„Augljóslega hugsar þú um heimaleikina og sumir andstæðingar eru erfiðari en aðrir. Það eru ýmsar pælingar í gangi. En mér finnst hálf skrýtið að sitja benda á þennan leik og segja þrjú stig, eitt stig. Bara að fara í hvern leik til að vinna hann. Það eru möguleikar á að ná góðum úrslitum í þessum sex leikjum.“
Ný keppni, nýtt upphaf
Breiðablik hefur ekki átt góðu gengi að fagna í Bestu-deildinni hérlendis. Liðið er enn án sigurs frá því í júlí og eru fimm stigum frá Evrópusæti þegar þrír leikir eru eftir. Er þetta að vissu marki gott fyrir hópinn að fá nýtt upphaf í nýrri keppni?
„Það er hægt að horfa á það þannig. Að fá eitthvað annað verkefni til að hugsa um. Við erum búnir að vinna fyrir þessu og búnir að gera vel til að komast hingað aftur. Þetta er öðruvísi en deildin heima, við gleymum henni rétt á meðan og erum spenntir fyrir þessu.“
Getur þú lagt fingur á hvað hefur orsakað þetta sigurleysi Breiðabliks?
„Það er erfitt að leggja fingur á það, þá værum við sennilega búnir að laga þetta. Stundum lendir maður í smá lægð eða kafla sem hlutirnir eru aðeins erfiðari en áður. Við kannski fáum á okkur mörk sem við fáum ekki venjulega á okkur. Ég veit ekki hvað veldur, hvort það sé einhver kemestría eða 'mojo' sem er ekki alveg 100 prósent.“
Leikurinn gegn Lausanne hefst klukkan 16:45 að íslenskum tíma í dag og fer fram á Stade de la Tuiliere sem tekur um 12,500 manns í sæti.