Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 03. maí 2021 10:21
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Finnur Tómas á leið á lán í KR?
Finnur Tómas
Finnur Tómas
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í gær barst fréttaritara ábending um að Finnur Tómas Pálmason, leikmaður IFK Norrköping, gæti verið á leið í KR á láni. Finnur er tvítugur miðvörður sem er uppalinn hjá KR og varð Íslandsmeistari með liðinu sumarið 2019. Hann gekk í raðir Norrköping í vetur.

Finnur hefur ekki komið við sögu í deildarleik með Norrköping á tímabilinu og ekki verið á bekknum í síðustu leikjum. Hann var hluti af U21 árs landsliðinu sem lék í lokakeppni Evrópumótsins í mars. Fréttaritari heyrði í Rúnari Kristinssyni, þjálfara KR, í morgun og spurði hann út í hvort Finnur væri á leið í KR.

Rúnar gat ekki tjáð sig um það. „Við erum búnir að skoða fullt af málum og við erum ekki með neitt í hendi. Við erum að vinna í okkar málum, að finna leikmenn og ekkert sem ég get sagt."

„Við erum búnir að vera leita að miðverði, miðjumanni og sóknarmanni í allan vetur en helst höfum við leitað að miðverði eða leikmanni í öftustu varnarlínu."


Væru það vonbrigði að fá engan leikmann inn fyrir gluggalok?

„Já, það væri ekki gott myndi ég segja. Við erum ekki með nægilega mikla breidd sérstaklega í varnarlínunni. Við erum mjög fínir fram á við og á miðjunni. Mig vantar örlítið meiri samkeppni varnarlega."

Hafiði spurst fyrir um að fá Finn Tómas á láni eða boðist að fá hann?

„Af virðingu við þeirra félög og þá sjálfa þá getum við ekki tjáð okkur um leikmenn sem eru samningsbundnir öðrum félögum," sagði Rúnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner