Dembele til Englands - Ramsdale orðaður við Bayern - Alexander-Arnold ætlar að framlengja við Liverpool
   lau 03. júní 2023 15:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pálmi Rafn tekur skóna fram og spilar með Völsungi í fyrsta sinn í 21 ár
watermark Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi Rafn Pálmason mun í dag spila sinn fyrsta leik fyrir Völsung í meira en 20 ár. Hann spilaði síðast fyrir liðið árið 2002 í 2. deild karla.

Í dag tekur hann skóna fram af hillunni og er hann í byrjunarliði Völsungs gegn Haukum á Ásvöllum.

Pálmi, sem er 38 ára gamall, fékk félagaskipti frá KR í Völsung á lokadegi félagaskiptagluggans í vor. Pálmi sagði eftir síðasta leik sinn á síðasta tímabili að skórnir væru komnir upp í hillu, en hann starfar í dag sem íþróttastjóri KR.

„Þetta eru bara svona skipti til að vera klár, mögulega verður það til þess að maður geti eitthvað aðstoðað móðurklúbbinn. Það á allt eftir að koma í ljós hvernig það passar. Það er býsna mikið í gangi hjá mér nú þegar, við sjáum hvað verður," sagði Pálmi við Fótbolta.net í apríl síðastliðnum.

Pálmi er uppalinn í Völsungi en hann er núna að loka hringnum þar, ef svo má segja. Hann lék fyrstu árin með Völsungi en fór svo í KA, þaðan í Val og lék hann svo í Noregi með Stabæk og Lilleström áður en hann kom heim og gekk í raðir KR árið 2015. Pálmi á að baki 18 A-landsleiki fyrir Ísland.

Leikur Hauka og Völsungs er á Ásvöllum núna klukkan 16:00. Fyrir leikinn eru Haukar í sjöunda sæti 2. deildar og Völsungur í ellefta sætinu.

Sjá einnig:
Pálmi Rafn: Mjög rómantísk hugsun
Athugasemdir
banner
banner