Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 03. júlí 2020 21:08
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Lengjudeildin: Gríðargóðir Leiknissigrar - Þrjú lið á toppnum
Lengjudeildin
Arek skoraði bæði mörk Leiknis F. í kvöld.
Arek skoraði bæði mörk Leiknis F. í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Finns skoraði sigurmark Leiknis í Keflavík.
Daníel Finns skoraði sigurmark Leiknis í Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þremur leikjum var rétt í þessu að ljúka í Lengjudeildinni. Hægt er að lesa ítarlega um þá með því að smella á þá leiki hér á forsíðu Fótbolti.net.

Við byrjum í Safamýri þar sem Framarar sigruðu Mosfellinga með einu marki gegn engu. Albert Hafsteinsson skoraði eina mark leiksins eftir sendingu frá Alexander Má Þorlákssyni. „ALBEEEEEERT HAFSTEINSSON. Fær boltan fyrir utan teig frá Alexander Má og Albert hamrar boltan í nær hornið!! Loksins komið mark í þetta hérna í Safamýri," skrifaði Anton Freyr Jónsson í beinni textalýsingu frá leiknum.

Á 75. mínútu bjargaði Afturelding á línu og kom í veg fyrir að staðan yrði 2-0. Afturelding var nálægt því að jafna á 84. mínútu en inn vildi boltinn ekki. Þriðji sigur Framara varð raunin og eru þeir með níu stig líkt og Þór og ÍBV, þrjú lið á toppnum.

Á Grenivík mættust stigalausu liðin Magni og Leiknir frá Fáskrúðsfirði. Arek Grzelak var hetja gestanna en hann skoraði bæði mörk gestanna, það fyrra úr vítaspyrnu og seinna í kjölfar hornspyrnu. Arek er fyrirliði Leiknis og skoraði einnig í síðustu umferð. Fleiri urðu mörkin ekki og dýrmæt þrjú stig fara Leiknismenn með austur á Fáskrúðsfjörð.

Í Keflavík fór fram áhugaverð viðureign þegar Reykjavíkur Leiknir mætti í heimsókn. Sævar Atli Magnússon skoraði fyrsta mark leiksins en rangstæða dæmd.

Dagur Austmann varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og kom heimamönnum yfir á 35. mínútu. Á fimm mínútna kafla í seinni hálfleik sneru gestirnir taflinu við með mörkum frá Mána Austmann og Daníel Finns.

Guy Smit, markvörður Leiknis, gerði vel undir lokin þegar hann varði frá heimamönnum og sá til þess að Breiðhyltingar fengu öll þrjú stigin, vel gert hjá Hollendingnum. Leiknir er með sjö stig eftir þrjár umferðir.

Fram 1 - 0 Afturelding
1-0 Albert Hafsteinsson ('56 )

Magni 0 - 2 Leiknir F.
0-1 Arkadiusz Jan Grzelak ('15 , víti)
0-2 Arkadiusz Jan Grzelak ('58 )

Keflavík 1 - 2 Leiknir R.
1-0 Dagur Austmann Hilmarsson ('35 , sjálfsmark)
1-1 Máni Austmann Hilmarsson ('55 )
1-2 Daníel Finns Matthíasson ('60 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner