Tottenham er í leit að framherja en liðið var án alvöru framherja á síðustu leiktíð eftir að Harry Kane yfirgaf félagið og gekk til liðs við Bayern.
Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, hefur staðfest að félagið sé að leita af framherja.
„Ég var með Kyogo hjá Celtic sem var alvöru 'nía' og ég var alltaf með framherja í Japan," sagði Postecoglou.
„Við þurftum að fara aðrar leiðir í fyrra. Þú veist að ef Kane hefði verið áfram hefði ég notað hann. Það er mikilvægast fyrir okkur að fá réttan leikmann. Við spilum á ákveðinn hátt, það er búist við ákveðnum hlutum líkamlega og tæknilega frá framherjanum."
Dominic Solanke, framherji Bournemouth, hefur verið orðaður við félagið en ólíklegt þykir að félagið sé tilbúið að borga 65 milljón punda söluákvæði í samningi enska framherjans.