Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   sun 03. desember 2023 14:14
Elvar Geir Magnússon
Freyr ósáttur við að Gylfi sé gerður að blóraböggli
Gylfi í leik með Lyngby.
Gylfi í leik með Lyngby.
Mynd: Getty Images
Danska úrvalsdeildarliðið Lyngby er að spila gegn Silkeborg í þessum skrifuðu orðum. Lyngby hefur ekki vegnað nægilega vel síðustu vikur.

Dönsku sparkspekingarnir Mikkel Bischoff og Kevin Stuhr-Ellegaard töluðu um það fyrir leikinn að koma Gylfa Þórs Sigurðssonar væri ein af skýringunum fyrir slöku gengi Lyngby að undanförnu.

Þeir töluðu um að liðið hefði spilað betur áður en Gylfi gekk í raðir félagsins. Freyr Alexandersson þjálfari Lyngby var pirraður yfir þessari greiningu sérfræðingana.

„Ég heyrði hvað þið voruð að tala um og þetta er léleg greining varðandi Gylfa. Ég geri kröfu á betri greiningu frá ykkur,“ sagði Freyr í viðtali fyrir leikinn.

„Gylfi hefur vissulega ekki verið einn besti leikmaður deildarinnar enda bjuggumst við ekki við því strax. Síðustu vikur höfum við lent í meiðslum og leikbönnum lykilmanna. Það er meira ástæðan fyrir því að liðið hefur ekki spilað betur.“

Gylfi er að glíma við meiðsli aftan í læri og hefur því ekki spilað að undanförnu. Freyr segir að Gylfi hefði líklega getað spilað komandi bikarleiki, síðustu leiki Lyngby fyrir vetrarfrí, en tekin hafi verið ákvörðun um að Gylfi myndi frekar hefja strax undirbúning fyrir seinni hluta tímabilsins sem hefst eftir áramót.

Lyngby er 1-0 yfir gegn Silkeborg eftir 50 mínútna leik þegar þessi frétt er skrifuð.
Athugasemdir
banner
banner
banner