„Geggjað að vera kominn í úrslit," sagði Daníel Hafsteinsson leikmaður KA eftir ótrúlegan sigur liðsins á Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á Greifavellinum í kvöld.
Lestu um leikinn: KA 6 - 4 Breiðablik
„Þetta var jafnt, við vorum fínir allan leikinn, það voru kaflar sem við vorum betri og kaflar sem Breiðablik tók aðeins yfir en hrikalega góður karakter að koma tvisvar til baka og svo klárum við þetta í vító, geggjuð tilfinning."
Daníel er gríðarlega spenntur fyrir komandi tímum hjá KA en liðið hefur leik í forkeppni Sambandsdeildarinnar í júlí þar sem liðið mætir Connah's Quay Nomads frá Wales. Fyrri leikurinn er hér á landi þann 13. júlí.
„Ég er hrikalega spenntur að taka þátt í því. Ég er búinn að spila einn Evrópuleik, það var með FH og það er hrikalega skemmtilegt að taka þátt í þessu," sagði Daníel.























