Manchester United mun ekki taka ákvörðun varðandi framtíð Mason Greenwood fyrr en í fyrsta lagi í mars, en þetta segir ítalski íþróttafréttamaðurinn Fabrizio Romano.
Englendingurinn er á láni hjá spænska félaginu Getafe þar sem hann hefur verið að gera ágætis hluti.
Greenwood var talinn eitt mesta efni Englands áður en hann var handtekinn í janúar á síðasta ári eftir að kærasta hans, Harriet Robson, birti myndir og myndböndum af áverkum sem hún sagði vera af hendi Greenwood. Auk þess birtist hljóðupptaka þar sem Greenwood þvingar hana til að eiga við sig samræði.
Leikmaðurinn mátt ekki æfa né spila með United á meðan málið var til rannsóknar, en málið var fellt niður fyrr á þessu ári. United ætlaði að fá hann aftur í hópinn fyrir þessa leiktíð, en hætti við eftir viðbrögð samfélagsins.
United tilkynnti þá að Greenwod myndi ekki spila aftur fyrir United, en félagið ákvað að lána hann til Getafe undir lok gluggans.
Greenwood hefur komið að sjö mörkum í tólf leikjum í deild- og bikar og virðist hann vera að nálgast sitt besta form, en United hefur ekki tekið ákvörðun varðandi framtíð hans.
„Sir Jim Ratcliffe, verðandi meðeigandi Manchester United, er þegar byrjaður að ræða stöðu Greenwood innan félagsins og miðað við það sem ég hef heyrt þá hefur engin ákvörðun verið tekin og það verður ekki gert í desember. Þetta mun taka einhvern tíma og ætlar félagið að leyfa honum að gera sitt hjá Getafe, síðan verður tekið mið af frammistöðu hans þar. Þetta mun líklega gerast í mars, apríl eða maí og það verða alls konar hlutir sem spila inn í. Það kemur nýr framkvæmdastjóri inn og nýtt fólk sem mun sjá um leikmannamál,“ sagði Romano við Caught Offside.
Athugasemdir